Birgitta er í 24. sæti á lista Reykjavíkur; bestu borgarinnar en kannast sjálf ekki við að hafa samþykkt að fara í framboð. Hún fékk yfirlýsingu frambjóðanda sem var skilað inn og segir að undirskrift sín þar sé fölsuð. Það kannast forsvarsmenn listans ekki við. Birgitta leitaði til yfirkjörstjórnar í Reykjavík sem vísaði málinu til héraðssaksóknara. Ekki er hægt að taka Birgittu af framboðslistanum.
Fréttastofa óskaði eftir afriti af skjalinu sem Birgitta undirritaði þegar hún sór drengskapareið að stjórnarskrá sem nýr þingmaður 2009. Þeirri beiðni var hafnað þar sem opinber birting gæti leitt til þess að gera óprúttnum aðilum kleift að falsa undirskrift hennar. Þess í stað fékk fréttastofa að skoða skjalið og hafði með í för Inga Vífil sem er sérfróður um undirskriftir og fræði sem að þeim snúa, og hefur til dæmis haldið bæði almenn skriftarnámskeið og námskeið um undirskriftir.