Gjörólíkt réttri undirskrift Birgittu

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Undirskriftin sem fylgdi yfirlýsingu um að Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður, tæki sæti á lista framboðsins Reykjavíkur; bestu borgarinnar, er gjörólík undirskriftinni sem Birgitta ritaði þegar hún sór drengskapareið að stjórnarskránni árið 2009. „Það er engum vafa undirorpið að þessar undirskriftir koma ekki frá sömu hendi,“ segir Ingi Vífill, grafískur hönnuður og sérfræðingur um undirskriftir.

Birgitta er í 24. sæti á lista Reykjavíkur; bestu borgarinnar en kannast sjálf ekki við að hafa samþykkt að fara í framboð. Hún fékk yfirlýsingu frambjóðanda sem var skilað inn og segir að undirskrift sín þar sé fölsuð. Það kannast forsvarsmenn listans ekki við. Birgitta leitaði til yfirkjörstjórnar í Reykjavík sem vísaði málinu til héraðssaksóknara. Ekki er hægt að taka Birgittu af framboðslistanum.

Fréttastofa óskaði eftir afriti af skjalinu sem Birgitta undirritaði þegar hún sór drengskapareið að stjórnarskrá sem nýr þingmaður 2009. Þeirri beiðni var hafnað þar sem opinber birting gæti leitt til þess að gera óprúttnum aðilum kleift að falsa undirskrift hennar. Þess í stað fékk fréttastofa að skoða skjalið og hafði með í för Inga Vífil sem er sérfróður um undirskriftir og fræði sem að þeim snúa, og hefur til dæmis haldið bæði almenn skriftarnámskeið og námskeið um undirskriftir.

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir

Fréttamaður og Ingi Vífill báru undirskriftirnar saman hlið við hlið í húsakynnum Alþingis. Munurinn blasti strax við, var reyndar svo mikill að Ingi Vífill hló upphátt. „Hann er all nokkur og er ég ekki í nokkrum vafa um það að sú undirskrift sem er á framboðsyfirlýsingunni er ekki sú sama og við sjáum á drengskaparheiti þegar Birgitta undirritaði það þegar hún gerðist alþingismaður.“

„Það er ýmislegt sem við getum gripið í,“ segir Ingi Vífill um hvað ber í milli. „Ef ég byrja á undirskriftinni hennar Birgittu. Hún er mjög karakterrík. Hún ber þess greinileg merki að þarna er einstaklingur sem hefur myndræna menntun eða mjög mikla myndræna reynslu. Birgitta hefur unnið í hinum ýmsu listformum, bæði gjörningum og í myndlist. Undirskrift hennar ber klár merki þess. Hún er mjög myndræn. Hún er mjög symmetrísk. Við sjáum til dæmis að upphafs b-ið í Birgitta er mjög flúrað, hefur mjög áhugaverðar kúrfur og króka sem við myndum venjulega ekki sjá þegar fólk væri að skrifa b almennt. Framboðsyfirlýsingin er öllu jarðbundnari, hún ber ekki merki þess að vera sérstaklega hönnuð undirskrift. Hún ber ekki merki þess að hafa verið skrifuð oft.“

Ingi Vífill segir engum vafa undirorpið að undirskriftirnar tvær komi ekki frá sömu hendi. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að Birgitta gæti skrifað svona skjal [framboðsyfirlýsinguna] með bundið fyrir augun með þeirri hendi sem hún skrifar ekki venjulega með. Að einhver gæti falsað hina raunverulegu undirskrift Birgittu eins og ég horfi á hana hér, ég tel það næsta ómögulegt.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV