
Fimm skjálftar í dag yfir 3 að stærð á Reykjanesskaga
Fyrsti skjálftinn varð klukkan rúmlega ellefu á föstudagsmorgun og mældist sá 3,4 að stærð og var hann staðsettur 5,8 km norðvestur af Reykjanestá. Næsti varð um klukkan hálf fjögur, hann var 3,5 að stærð og átti upptök sín 2,1 kílómetra norðvestur af Reykjanestá. Sá þriðji var 3,3 að stærð og varð akkúrat klukkustund seinna á svipuðum slóðum, norðvestur af Reykjanestánni.
.Sá fjórði, 3,1 að stærð, varð klukkan rúmlega fimm og sá fimmti og síðast klukkan hálfátta í kvöld. Sá mældist 3,2.
Yfir 400 skjálftar á Reykjanesskaganum
Sigríður Kristinsdóttir náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar segir yfir 200 jarðskjálfta hafa orðið við Reykjanestá, og litlu færri skjálfta nærri fjallinu Þorbirni, skammt norður af Grindavík. Þar eru þeir þó öllu minni, sá stærsti mældist 1,9.
- Sjá einnig: Mikil spenna og skjálftavirkni á Reykjanesskaga
Sigríður segir að þó skjálftavirknin sé töluverð, uppfylli hún ekki skilgreiningu um óróapúls enn. Óróapúls lýsi sér þannig að skjálftar verði svo ört að erfitt reynist að greina á milli þeirra. Það þurfi því enn þéttari virkni til þess að það eigi við.
Í síðasta mánuði gaf Veðurstofan út að mikilvægt væri að vakta áfram Reykjanesskagann vegna kvikusöfnunar. Náttúruvársérfræðingur segir ekki að sjá á mælitækjum að breyting hafi orðið á þeirri stöðu, enn sé kvika að safnast á um 16 kílómetra dýpi.
Fréttin var uppfærð eftir að endanlegar tölur lágu fyrir um fjölda skjálfta á föstudag.