Fár í deilu fjandkvenna nær hámarki

epa09942770 Coleen Rooney (L) and her soccer manager and former player Wayne Rooney (R) depart the Royal Courts of Justice in London, Britain, 12 May 2022.  Footballers' wives Coleen Rooney and Rebekah Vardy are facing each other in the High Court at the opening of their 'Wagatha Christie' libel trial over a social media post. The case centres on Twitter and Instagram posts from October 2019 where Coleen Rooney alleged that someone had leaked stories to The Sun tabloid.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Fár í deilu fjandkvenna nær hámarki

13.05.2022 - 11:13

Höfundar

Coleen Rooney, eiginkona knattspyrnumannsins Wayne Rooney, gefur í dag skýrslu í einu umtalaðasta meiðyrðamáli Bretlands sem gengur undir nafninu „Wagatha Christie“. Rebekah Vardy, eiginkona knattspyrnumannsins Jamie Vardy, sakar Coleen um meiðyrði eftir að hún sakaði Rebekuh opinberlega um að leka fréttum af Rooney-fjölskyldunni til breska götublaðsins The Sun.

Jamie Vardy og Wayne Rooney eru einhverjir þekktustu framherjar enskrar knattspyrnu. Rooney þandi netmöskvana fyrir Manchester United  og er nú knattspyrnustjóri Derby County en Jamie Vardy hefur verið lykilmaður í liði Leicester.

Eignkonur þeirra, Coleen og Rebekah, kynntust þegar eiginmennirnir voru liðsfélagar með enska landsliðinu.  Þeir voru báðir í enska hópnum sem tapaði fyrir Íslandi á EM í Frakklandi 2016. 

Þremur árum eftir þá niðurlægingu slettist upp á vinskapinn þegar Coleen sakaði Rebekuh um að selja fréttir um Rooney-fjölskylduna til götublaðsins The Sun.  Til að gera langa sögu stutta er málið svona; Coleen hafði grun um að einhver af vinum hennar væri að leka upplýsingum sem birtust á lokaðri Instagram-síðu fjölskyldunnar. 

Hún útilokaði alla nema einn frá því að sjá það sem birtist og í fimm mánuði fylgdist hún með hvort upplýsingarnar yrðu birtar í The Sun. Þetta voru allskyns lygasögur;  meðal annars um að Coleen ætlaði aftur í sjónvarp og að flætt hefði inn í kjallara fjölskyldunnar.

„Og vitiði hvað - það gerðist,“ skrifaði Coleen í færslu  sem birtist á Twitter fyrir þremur árum. „Ég hef vistað og tekið skjáskot af öllum þessum sögum sem sýna það svart á hvítu að það var aðeins ein manneskja sem sá þær..........og það er Rebekah Vardy.“

Færslan fór eðlilega á mikið flug og málið var strax kallað „Wagatha Christie“. Það er auðvitað vísun í orðið „WAGs“ sem er notað um eiginkonu íþróttamanna og Agöthu Christie. 

Rebekah var ekki par sátt við þessa afhjúpun, neitaði sök og stefndi Coleen fyrir meiðyrði. Dómarar reyndu árangurslaust að telja þær af því að fara þessa leið, hvöttu þær til að leita sátta en allt kom fyrir ekki.   Réttarhöldin hófust í vikunni og breskir fjölmiðlar hafa fylgst með hverju skrefi og orði.  

epa09942772 Rebekah Vardy (C), wife of British soccer player Jamie Vardy, departs the Royal Courts of Justice in London, Britain, 12 May 2022.  Footballers' wives Coleen Rooney and Rebekah Vardy are facing each other in the High Court at the opening of their 'Wagatha Christie' libel trial over a social media post. The case centres on Twitter and Instagram posts from October 2019 where Coleen Rooney alleged that someone had leaked stories to The Sun tabloid.  EPA-EFE/NEIL HALL
Rebekah Vardy mætir í skýrslutöku Mynd: EPA-EFE - EPA

Rebekah gaf skýrslu í gær. Þar viðurkenndi hún að hafa reynt að selja frétt af ölvunarakstri knattspyrnumannsins Danny Drinkwater sem þá var liðsfélagi eiginmanns hennar hjá Leicester.  The Sun vissi þegar af málinu og því varð ekkert af sölunni. Þetta hefði verið einsdæmi.

Hún var einnig spurð hvort hún væri heimildin á bakvið fréttir þess efnis að knattspyrnumaðurinn Riyad Mahrez, sem þá lék með Leicester, hefði ekki mætt á æfingar til að knýja fram sölu til Manchester City.  Og að leikmennirnir væru æfir yfir framkomu hans. „Við Jamie ræddum aldrei hvort leikmennirnir hefðu verið æfir,“ svaraði Rebekah.

Skýrslutakan stóð í tíu klukkustundir og eins og við var að búast snerist hún fyrst og fremst um samskipti Rebekuh og umboðsmanns hennar. Hvort hún hefði falið honum að senda áfram upplýsingar um Rooney-fjölskylduna til blaðamanns The Sun. 

Svo illa vildi til að umboðsmaðurinn missti símann sinn í sjóinn nokkrum dögum áður en dómstólar skipuðu honum að afhenda hann. Það er því ekki vitað hvaða upplýsingar hann hafði að geyma.

Lögmaður Coleen sótti svo fast að Rebekuh að hún felldi tár undir hvössum spurningum hans.  Tvívegis var gert hlé á meðan dómari gaf Rebekuh tækifæri til að jafna sig.

Lögmaðurinn  spurði ítarlega um samband hennar við fjölmiðla og hvort umboðsmaður hennar hefði séð um að leka fréttum af Rooney-fjölskyldunni til The Sun.  „Vitnisburður þinn í dag sýnir að þú ert reiðubúin til að ljúga eiðsvarin,“ sagði lögmaður Rooney. „Nei,“ svaraði Rebekah fullum hálsi.

Flestir breskir miðlar eru sammála um að Rebekah hafi með vitnisburði sínum skellt skuldinni á umboðsmann sinn. Það hafi verið hann sem lak upplýsingum um Rooney-fjölskylduna. Hún tók þó fram að þetta hefðu ekki verið „nýjar upplýsingar.“

Umboðsmaðurinn hefur ekki heilsu til að gefa skýrslu í málinu.

Í dag kemur Coleen svo fyrir dóminn.  Fram kemur á vef BBC að hún hafi fylgst með skýrslutökunni yfir Rebekuh með eiginmanninn Wayne sér við hlið og skrifað niður athugasemdir. 

Tengdar fréttir

Erlent

Skilaboðum ætlað að varpa ljósi á deilu framherjafrúa

Íþróttir

Rebekah Vardy fékk kvíðaköst eftir ásakanir Rooney

Erlent

Hallgerður Vardy eða Hallgerður Rooney?