Bræðurnir dansa eins og hálfvitar

Mynd: Jón Jónsson og Frikki Dór / Jón Jónsson og Frikki Dór

Bræðurnir dansa eins og hálfvitar

13.05.2022 - 11:00

Höfundar

Það er blönduð sumarstemmning í Undiröldu kvöldsins þar sem jákvæðustu bræður í heimi dansa sig inn í sumarið og Íris Lind og Páll Rósinkranz taka bara eitt skref í einu inn í sama sumar. Annað tónlistarfólk með nýtt efni að þessu sinni eru Foreign Monkees, Nýju fötin keisarans, Ragnar Ólafsson og Sólveig Ásgeirsdóttir, Klaufar og Bjarni Ómar Haraldsson ásamt Svavari Hafþóri Viðarssyni.

Jón Jónsson ásamt Friðrik Dór  Dansa

Poppbræðurnir Jón Jónsson og Frikki Dór vilja meina að þeir séu mættir með sumarið með lagi sínu Dansa. Lagið kom fyrst út á plötu Jóns, Lengi lifum við, í fyrra og þá án Frikka en með Frikka og smá hjálp frá Pálma Ragnari Ásgeirssyni var sáldrað smá auka sumardufti á Dansa.


Nýju fötin keisarans – Sérðu ekki það sem ég sé

Hljómsveitin Nýju fötin keisarans, sem eins og kunnugt er varð til upp úr Svörtum fötum, hefur sent frá sér lagið Sérðu ekki það sem ég sé. Lagið er eftir Hrafnkel Pálmason, eða Kela, en söngvarinn Svenni, Sigursveinn Þór Árnason, samdi textann.


Foreign Monkeys – We steal from ourselves

We Steal From Ourselves er önnur smáskífan sem Foreign Monkeys senda frá sér í ár. Textinn er að sögn sveitarinnar innblásinn af hlaðvarpi Gavins Eslers, The Big Steal, sem fjallar um arðrán Vladimirs Pútins Rússlandsforseta á rússnesku þjóðinni.


Klaufar – Þessi eina sanna

Hljómsveitin Klaufar hefur sent frá sér lagið Þessi eina sanna sem er eftir Friðrik G. Sturluson. Hljómsveitina skipa þeir Guðmundur Annas Árnason söngvari, Birgir Nielsen trommuleikari, Friðrik Sturluson bassaleikari, Kristján Grétarsson gítarleikari og Sigurgeir Sigmundsson stálgítarleikari.


Íris Lind ásamt Páli Rósinkranz – Eitt skref í einu

Íris Lind Verudóttir og Páll Rósinkranz hafa sent frá sér lagið Eitt skref í einu en Matthías Stefánsson á allan undirleik. Lagið er eftir Gunnlaug Gunnarsson og Emil Hreiðar Björnsson samdi textann.


Ragnar Ólafsson og Sólveig Ásgeirsdóttir – Hugsanir

Lagið Hugsanir er úr þáttaröðinni Vitjanir sem sýnd er á RÚV um þessar mundir. Ragnar Ólafsson samdi alla tónlistina í þáttunum og gegnir rödd Sólveigar þar algjöru lykilhlutverki en hún semur líka textann.


Bjarni Ómar Haraldsson og Svavar Hafþór Viðarsson – Enginn lengur veit

Annað lagið á væntanlegri þröngskífu Bjarna Ómars Haraldssonar og Svavars Hafþórs Viðarsonar, sem kemur út í júlí, er lagið Enginn lengur veit. Lag og texti er eftir þá félaga og þetta er jafnframt titillag plötunnar.