Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þörf á innviðauppbyggingu eftir uppsveiflu síðustu ára

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Uppbygging innviða í kjölfar íbúafjölgunar, og umhverfismál, eru meðal þess sem brennur á kjósendum í Vesturbyggð. Íbúar á Barðaströnd vilja að tekið sé á skólamálum þar í sveit.

Vesturbyggð er annað tveggja sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum. Sveitarfélagið varð til 1994 við sameiningu Barðastrandarhrepps, Rauðasandshrepp, Bíldudalshrepps og Patrekshrepps. Í sveitarfélaginu bjó 1024 við síðustu kosningar en 1131 býr þar núna. Tveir flokkar eru í framboði.

Byggðaþróun hefur snúið til betri vegar með tilheyrandi áskorunum

Mikil uppbygging og fólksfjölgun hefur verið í sveitarfélaginu síðustu ár, sér í lagi vegna aukinna umsvifa í fiskeldi, en því fylgja áskoranir. Uppbygging innviða er þar veigamikið verkefni, einkum uppbygging fjallvega á milli byggðalaga.

„Það eru bara handónýtir vegir og það er verkefni sem þau lenda í að ná slíku út úr stjórnvöldum að koma að því verkefni með þeim,“ segir Sigurður Viggósson stjórnarformaður Odda á Patreksfirði.

Þá vantar sárlega húsnæði á Patreksfirði og Bíldudal. Á Bíldudal var nýverið tekin skóflustunga fyrir tíu nýjum íbúðum. Sumar þeirra fara í almenna sölu og verða þær fyrstu til að gera það í þrjátíu ár. En sýn íbúa er skýr: það þarf meira til. 

Vilja að eitthvað sé gert í skólamálum á Barðaströnd

Barnalán hefur fylgt þessari þróun og hafa bæði framboðin byggingu nýs leikskóla á stefnuskrá. 

Á Birkimel á Barðaströnd var skólahald lagt niður 2016. Þá voru tvö börn þar á skólaaldri, en í haust verða þau sextán. Sveinn Viðarsson og Kristín Ósk Matthíasdóttir búa í Vatnsfirði og keyra þremur börnum sínum á Patreksfjörð í skólann á hverjum degi.

„Þetta eru 64 kílómetrar aðra leið, það er yfir Kleifarheiði. Fjallveg sem er búinn að vera meira og minna lokaður núna eftir áramót,“ segir Sveinn. 

„Ég held að þetta sé svona efsta málið á alla vega Barðaströndinni að það séu allir sammála um það að það þarf að gera eitthvað í þessum skólamálum.“ 

Náttúruverndarmálin sitja á hakanum

Umhverfismálin eru sumum ofarlega í huga, til dæmis í tengslum við mögulegan þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Freyja Ragnarsdóttir Pedersen býr á Bíldudal.

„Náttúruverndarmálin, þau fá aðeins að sitja á hakanum. Maður heyrir meira og meira af því en það vantar klárlega meiri umfjöllun um náttúruverndarmál og mikilvægi náttúrunnar.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir