Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þarf að flytja inn allt að 9 þúsund starfsmenn

12.05.2022 - 19:05
Ferðaþjónustan þarf að fá til landsins sjö til níu þúsund erlenda starfsmenn á þessu ári og næsta til að hægt sé að sinna þeim fjölda ferðamanna sem búist er við, segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Isavia gaf úr farþegaspá í gær, þá fyrstu frá þvi fyrir heimsfaraldurinn. Hún sýnir hraðari fjölgun en gert var ráð fyrir í febrúar og er nú búist við því að 5,7 milljónir farþega fari um völlinn á þessu ári. Ferðaþjónustan er því að rísa upp úr öskustónni. Formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu segir björtustu spár þeirra vera að rætast. En verður hægt að fá herbergi?

„Það koma alltaf dagar og það eru svæði á landinu sem eru erfið og hafa alltaf verið erfið, en það gengur betur og betur með hverju árinu eftir því sem bætist við í uppbyggingunni, þá aukast líkurnar náttúrlega á að fá herbergi,“ segir Kristófer Oliversson.

Við þetta bætist mönnunin, en Kristófer segir að dæmigert sé að það vanti kokka og þjóna. Margir hafi farið úr greininni í faraldrinum, en eitthvað komi aftur en nýtt starfsfólk sé um 70 til 80%. Hann segir að þótt betur horfi verði greinin lengur að rétta úr sér enda hafi hún farið hvað verst út úr faraldrinum.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir útlitið betra en búist var við sem sé gott, en jafnvel geti farið svo að færri geti keypt ýmiss konar þjónustu eða þjónuþætti en vildu og það sé vandinn. Þar vegi mönnunarþátturinn þungt.  

„Ég myndi segja að það sé svona almennt séð þá er mjög mikið af fólki sem var starfandi í ferðaþjónstu fyrir faraldurinn farið úr greininni, um 9 þúsund manns í lok 2021 voru horfin miðað við 2019 þar af helmingur Íslendingar og helmingur af erlendu bergi,“ segir Jóhannes Þór Skúlason.

Fyrir utan starfsfólk í margs konar veitingaþjónustu og fleiru vantar leiðsögumenn og fleiri. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni um fjölda starfsmanna sem tengjast ferðaþjónustu voru þeir yfir 33 þúsund fyrir covid, þeim snarfækkaði þegar faraldurinn skall á. Eðli málsins samkvæmt jókst atvinnuleysið í takt við það. Jóhannes Þór segir starfsfólkið skila sér illa til baka í greinina, einkum það íslenska. Því þurfi að ráða fleira erlent starfsfólk með tilheyrandi þjálfunarkostnaði.

„Ef við horfum á þetta svona heildrænt þá myndi ég segja að á þessu ári og næsta, til þess að fylla upp í capacity, til að geta sinnt öllum þeim fjölda sem eftirspurnin sýnir, þá hugsa ég að það megi búast við að það séu á milli sjö og níu þúsund manns sem gæti þurft að koma hér erlendis frá, sem er heldur meira en var kannski fyrir faraldurinn, kannski tvö þúsund manns umfram það sem var fyrir faraldurinn. Þannig að já, ég held það það muni klárlega þurfa meira fólk erlendis frá.“

Það gæti líka verið erfitt að fá bílaleigubíl yfir háannatímann, en bílaleigubílum fækkaði í faraldrinum miðað við tölur frá Samgöngustofu. Umboðin hafa ekki náð að flytja inn nógu marga bíla og hefur Bílaleiga Akureyrar til að mynda gripið til þess ráðs að flytja sjálf inn bíla til viðbótar.

Það er því útlit fyrir að við getum ekki tekið á móti alveg öllum þeim fjölda sem hingað myndi vilja koma og ekki selja þeim alla þá þjónustu sem annars væri hægt. 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV