Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Sumt er óttalega vitlaust en annað er bara ágætt"

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Segir Haraldur Freyr Gíslason formaður leikskólakennara um málflutning sveitarstjórnarmanna fyrir kosningarnar á laugardag. Hann segir að hraður vöxtur í leikskólakerfinu sé helsta ástæða þess að illa gengur að fjölga menntuðum leikskólakennurum.

„Umræðan hefur bara verið alls konar eins og alltaf.  Sumt er óttalega vitlaust og annað er bara ágætt. Stærsta verkefni sveitarfélaga er að fjölga leikskólakennurum og það hefur  verið lengi. Sá vandi er nokkuð  djúpstæður og helgast fyrst og síðast af því að þetta skólastig hefur vaxið allt of hratt til að geta staðið almennilega undir sér. Svo koma á móti ákvarðanir samfélagsins að taka inn yngri og yngri börn sem hefur komið okkur í erfiða stöðu og þanið út kerfið", sagði Haraldur á Rás 1 í morgun.

Hann segir að á síðustu 20 árum hefur leikskólakerfið vaxið um helming. 1998 voru leikskólakennarar þúsund en voru 1600 árið 2019. Þá voru rúmlega rúmlega þrjú þúsund ófaglærðir við störf á leikskólum.

„Þeim hefur fjölgað um helming sem koma að uppeldi og menntun barna í leikskólum.  Við ráðum ekki við þessa stækkun þrátt fyrir fjölgun í leikskólanáminu mörg ár aftur í tímann.  Það stefnir í metútskrift núna í vor. Við höfum verið að benda á að þessi hraði vöxtur sé helsta ástæða þess að okkur tekst ekki að fjölga leikskólakennurum hlutfallslega". 

Hann segir að það þurfi að hægja á vextinum sem rímar ekki við hugmyndir um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.  „Það mun ekki takast frekar en það tókst fyrir 4 eða 10 árum. Stækkun kerfisins verður alltaf umfram efni og gæði. Þrýstingur á kerfið muni ekki bæta starfsaðstæður á leikskólastiginu.  Svo er þeirri spurningu ósvarað hvort við eigum að vera að færa okkur neðar og neðar. Af hverju er umræðan ekki háværari að brúa bilið með lengra fæðingarorlofi? Við ættum að skoða þann kost miklu frekar". Hann segir að það ætti að ræða það hvort börn gætu komið í leikskólann í nokkrar klukkustundir á dag í tengslum við fæðingarorlofið. Þennan tíma sé síðan hægt að lengja.   

 

Arnar Björnsson