Rautt kjöt á útleið

12.05.2022 - 13:34
Mynd: RÚV / RÚV
Stefán Gíslason ræddi um rautt kjöt og ástæður þess að nauðsynlegt er að draga úr neyslu á því.

 

Stefán Gíslason les pistilinn:

Líklega erum við flest frekar vanaföst, ekki síst þegar kemur að mataræði. Þau okkar sem eru vön að borða rautt kjöt oft í viku eru til dæmis frekar líkleg til að halda því áfram, nema eitthvað beinlínis knýi okkur til að breyta því. Stundum stöndum við reyndar frammi fyrir því að breytingar eru óhjákvæmilegar – og þannig er staðan einmitt núna. Loftslagsbreytingar kalla einfaldlega á neyslubreytingar. Og breytingar þurfa alls ekki að vera leiðinlegar.

Hvað er „rautt kjöt“?

Skilgreiningin á rauðu kjöti kann að vera örlítið breytileg, en þegar ég tala um rautt kjöt er ég fyrst og fremst að tala um kjöt af jórturdýrum, þ.e.a.s. kjöt af nautgripum, sauðfé og geitfé. Í loftslagssamhengi sker þetta kjöt sig nefnilega úr vegna þess að jórturdýr gefa frá sér miklu meira af gróðurhúsalofttegundum en önnur dýr. Þar af leiðandi fylgir miklu stærra kolefnisspor hverju kílói af jórturdýrakjöti en flestum öðrum matvælum.

Kolefnissporið

Hundruð sérfræðinga, bæði hérlendis og erlendis, hafa spreytt sig á því að reikna kolefnisspor matvæla. Í langflestum tilvikum hefur niðurstaða þessara útreikninga fyrir lambakjöt og nautakjöt legið á bilinu 18-34 kíló af koldíoxíðígildum fyrir hvert kíló af ætu kjöti. Til samanburðar eru niðurstöðurnar fyrir svínakjöt flestar á bilinu 4-7 kíló á kíló, fyrir kjúklinga 3-5 kíló, fyrir fisk 2-5 kíló – og fyrir korn og baunir 0,4-0,8 kíló.

Þegar ég var ungur …

Sjálfur er ég alinn upp á lambakjöti og í uppvextinum velti ég kolefnisspori þess ekkert fyrir mér. Á þeim tíma upplifði nefnilega hvorki ég né aðrir að lambakjötsneysla væri hluti af einhverju vandamáli sem myndi gera líf okkar og afkomendanna erfitt þegar kæmi fram á 21. öldina. Enda var lambakjötsneyslan svo sem ekki hluti af einhverju slíku vandamáli á þeim tíma. Síðan þá hefur bara svo margt breyst, ekki síst neyslan okkar. Á þeim tíma var t.d. enginn bíll á heimilinu, við fórum helst aldrei af bæ, hvað þá til útlanda, plast var eiginlega ekki til, hraðtíska og fatasóun voru algjörlega óþekkt fyrirbæri, allar umbúðir voru endurnýttar og nánast engu hent.

Margt hefur breyst

Heimilið mitt er aldeilis ekki eini staðurinn á jörðinni þar sem margt hefur breyst frá því að ég var að alast upp. Þegar ég var þriggja ára bjuggu til dæmis um þrír milljarðar manneskja á jörðinni, en núna erum við um það bil 8 milljarðar. Í þokkabót er neysla hvers einstaklings, bæði mín og annarra, undantekningarlítið orðin miklu meiri en þá. Árið sem ég var þriggja ára fóru til dæmis 713 farþegar frá landinu um Keflavíkurflugvöll samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Árið 2019 var þessi tala komin upp í 2.612.143.

Kannski borða ég svipað mikið af lambakjöti og ég gerði þegar ég var þriggja ára. Og líklega hefur kolefnisspor kjötsins ekki breyst sem neinu nemur, enda liggja um 80% af kolefnissporinu annars vegar í metanlosun frá meltingarvegi dýranna og hins vegar í metan- og glaðloftslosun frá búfjáráburði. Þessir þættir hafa svo sem ekkert breyst, nema hvað losun á hvert kíló af kjöti minnkar örlítið eftir því sem afurðir af hverri vetrarfóðraðri á aukast.

Það sem hefur breyst er hins vegar það, að þó að ég borði kannski svipað mikið af lambakjöti og ég gerði þegar ég var þriggja ára, þá geri ég miklu meira af öllu öðru. Og hér um bil allir aðrir gera líka miklu meira af öllu öðru en tíðkaðist á þeim árum, auk þess sem þessir hér um bil allir aðrir eru orðnir nærri þrefalt fleiri en þá. Þess vegna er lambakjötsneyslan mín í dag orðin hluti af vandamáli sem ég ber jafnmikla ábyrgð á og hver annar. Og ef ég og þessi svokallaði „hver annar“ gerir ekkert í málinu, þá verður líf okkar og afkomendanna erfitt þegar kemur lengra fram á 21. öldina.

Hvað með flutningana?

Þegar talið berst að þeim möguleika að byggja mataræðið sitt í stórauknum mæli á jurtafæði í staðinn fyrir jórturdýrakjöt fer fólk eðlilega að velta fyrir sér hvaða þýðingu það hefði fyrir kolefnissporið ef við færum að flytja meira af matvælum inn. Íslendingar hafa nefnilega kannski ekki verið nógu duglegir að framleiða jurtafæðið sitt sjálfir, þrátt fyrir allan jarðhitann og ódýra rafmagnið sem ætti að geta hjálpað til við það. En þegar grannt er skoðað kemur í ljós að flutningarnir bæta litlu við kolefnissporið, svo lengi sem maturinn kemur til landsins með skipum en ekki flugvélum. Samkvæmt kolefnisreikni Eimskips losna til dæmis 72 g af koldíoxíðígildum þegar eitt kíló af matvælum, eða einhverju öðru, er flutt sjóleiðina frá Rotterdam til Reykjavíkur. Þetta þýðir að kolefnisspor ímyndaðs kjötstykkis myndi til dæmis hækka við þennan tiltekna flutning úr 26 kílóum á hvert kíló í 26,07 kíló. Og á sama hátt myndi kolefnisspor ímyndaðs baunapakka hækka úr 0,6 kílóum á hvert kíló í 0,67 kíló. En hér er ég auðvitað bara að tala um kolefnissporið, en ekki hollustu, fæðuöryggi, atvinnuöryggi og svo framvegis.

Fimm ráð Umhverfisstofnunar

Já, við þurfum sem sagt að minnka neyslu á jórturdýrakjöti. Boðskapur dagsins er samt ekki sá að þetta verði að gerast með því að við förum öll alfarið yfir í jurtafæðið á morgun. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar, undir yfirskriftunum „Grænn lífstíll“ og „Matvæli“ eru t.d. sett fram fimm ráð sem duga ágætlega til að minnka kolefnisspor mataræðisins. Þessi ráð eru í stuttu máli í fyrsta lagi að bæta grænmeti og baunum við kjötrétti, t.d. með því að bæta baunum út í buffið, í öðru lagi að velja aðra próteingjafa en rautt kjöt, t.d. baunir, belgjurtir, fisk eða kjúkling, í þriðja lagi að láta helminginn af disknum vera grænmeti, í fjórða lagi að prófa grænkerafæði af því að maður þarf nefnilega ekki að ákveða að vera „vegan“ til að gera það, og í fimmta lagi að nýta dýraafurðir betur, t.d. með því að borða aukaafurðir sem annars færu kannski til spillis, svo sem innmat af ýmsu tagi.

Sveitarstjórnir, skólamötuneyti og Norður-Írland

Þegar hér er komið sögu er rétt að halda því til haga að við sem einstaklingar berum ekki alla ábyrgð á þeim breytingum sem þurfa að verða til að líf okkar og afkomendanna verði ekki óþarflega erfitt þegar kemur lengra fram á 21. öldina. Þarna gegna til dæmis stjórnvöld líka mikilvægu hlutverki. Og af því að við ætlum að kjósa okkur sveitarstjórnir á laugardaginn, er ekki úr vegi að rifja upp að í verkfærakistu sveitarstjórna leynist það einfalda tæki að skipta kjötmáltíðum í mötuneytum á vegum sveitarfélagsins, þar með talið í skólamötuneytum, út fyrir jurtafæði. Þetta getur sem best gerst í áföngum. Til dæmis er upplagt að byrja bara á mánudögunum. Svona breytingar verða sjálfsagt ekki í öllum tilvikum vinsælar, því að eins og ég minntist á í upphafi erum við flest frekar vanaföst, ekki síst þegar kemur að mataræði. En þetta er samt bara eitt af því sem stjórnvöld geta gert. Svo er náttúrulega líka hægt að grípa til aðgerða á borð við þær sem þingið á Norður-Írlandi samþykkti á dögunum sem hluta af nýjum loftslagslögum. Samkvæmt þeim þarf landbúnaðurinn þar í landi að minnka metanlosun greinarinnar um 46% fram til ársins 2050. Til þess þarf að öllum líkindum að fækka nautgripum í landinu um hálfa milljón og sauðfé um 700 þúsund.

Í stuttu máli:

Já, þetta er ekki allt alveg auðvelt. En breytingar eru samt alls ekki alltaf leiðinlegar. Og þörfin á að breyta einhverju minnkar ekki þó að við frestum breytingunum. Hún bara eykst.

 

Heimildir og lesefni, m.a.: · https://www.sciencedirect.com/science/article/abs/pii/S0959652616303584 · https://ust.is/graent-samfelag/graenn-lifstill/matvaeli/ · https://www.theguardian.com/environment/2022/apr/22/northern-ireland-faces-loss-of-1-million-sheep-and-cattle-to-meet-climate-target

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður