Kindunum líður betur úti

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Kindunum líður betur úti

12.05.2022 - 15:07

Höfundar

„Þetta er náttúrulega ansi mikil törn. Á meðan á sauðburði stendur þá sefur Geir bara hérna í fjárhúsunum. Við erum hinsvegar með einn fjórtán mánaða gutta núna þannig að ég er að sinna honum en er í húsunum eins mikið og ég get,“ segir Aldís Þórunn Bjarnardóttir bóndi á Stóru - Reykjum í Flóa.

Aldís og Geir Gíslason, maður hennar, eru með 270 kindur og þar af var um þriðjungur borinn þegar Landann bar að garði.

„Ég vildi gjarnan að þetta væri okkar aðalstarf en það er því miður ekki svo mikið upp úr þessu að hafa. Ég rek smíðafyrirtæki, ásamt félaga mínum, og Aldís starfar á bráðamóttökunni á Heilsugæslunni á Selfsossi. Við tökum okkur hinsvegar frí, eins og hægt er, á meðan sauðburður stendur yfir,“ segir Geir. 

Þau Aldís og Geir segja að sauðburður hafi gengið vel það sem af er. „Það hjálpar okkur að við erum með góða aðstöðu og ef á þarf að halda getum við haft allt féð inni frameftir maí en sem betur fer er útlit fyrir gott vor. Við erum farin að setja út lambær nú þegar. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli ef vorið verður þokkalegt, eins og útlit er fyrir þar sem gróður er kominn vel á veg, því kindunum líður betur úti í grænu grasinu heldur en inni í húsum,“ segir Aldís