Fréttakona vegin í Palestínu
Fréttakona Al Jazeera, Shireen Abu Akleh, var vegin í gærmorgun í flóttamannabúðum í Jenin á Vesturbakkanum. Hún var þar að fylgjast með er ísraelskir hermenn réðust inn í búðirnar til að handtaka liðsmann Hamas-samtakanna. Abu Akleh var með hjálm og klædd í skothelt vesti sem var greinilega merkt PRESS er hún var skotin í höfuðið og lést samstundis.
Palestínumenn líta á víg Abu Akleh sem morð
Talsmenn Al Jazeera og palestínsk stjórnvöld segja að ísraelsk leyniskytta hafi vísvitandi skotið Abu Akleh til bana, hún hafi verið myrt. Ísraelsk yfirvöld neita því og segja að Abu Akleh hafi líklega orðið fyrir skoti frá vopnuðum Palestínumönnum sem skutu á ísraelsku hermennina. Abu Akleh var mjög vel þekkt í heimshlutanum og naut mikillar virðingar. Víg hennar hefur vakið mikinn óhug.