Rúmlega 187 þúsund manns hafa verið skikkaðir í einangrun í Norður Kóreu eftir að fyrstu tilfellin af Covid-19 voru staðfest þar á dögunum. Eitt dauðsfall hefur einnig verið staðfest vegna sjúkdómsins.
Í tilkynningu frá KCNA, ríkismiðli Norður Kóreu, segir að 187.800 einstaklingar séu nú í einangrun og gangist undir meðferð við ónefndum veikindum. Sex hafa látist og staðfest er að einn þeirra hafði greinst með Omicron-afbrigði kórónuveirunnar.
Að sögn miðilsins hafa veikindin breiðst um landið síðan í lok apríl. Fjöldi kórónuveirutilfella hefur ekki verið staðfestur.
Þegar faraldurinn hófst árið 2020 setti Norður Kórea afar harðar aðgerðir við landamæri landsins. Nú hafa umfangsmiklar sóttvarnaraðgerðir tekið gildi víða um landið, meðal annars í höfuðborginni Pyongyang.