Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dálæti á einkabílnum vex með fjarlægð frá miðborginni

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Dálæti Reykvíkinga á einkabílnum er mismikil eftir búsetu. Þannig eru flestir aðdáendur hans hlutfallslega í Grafarvogi en flestir unnendur almenningssamgangna eru í miðborginni. Þetta leiða niðurstöður rannsóknar Rúnars Vilhjálmssonar félagsfræðiprófessors í ljós. „Það er svona meira að íbúar hallist að einkabílnum þegar fjær kemur vesturbæ og miðbæ,“ segir Rúnar.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar voru nýverið inntir eftir afstöðu sinni til hinna ýmsu verkefna sem eru á könnu sveitarfélaga. 

Vantar verlega upp á að hugað sé að áherslumálum íbúa

„Ég held að það sé mikilvægt einmitt að sveitarstjórnarmenn hafi í huga hver áherslumál íbúanna eru og ég held að það vanti verulega upp á það oft. Og þess vegna var nú farið af stað með þessa athugun,“ segir Rúnar.

Í könnuninni var fólk beðið um að velja milli þess að sveitarfélagið legði áherslu á að greiða fyrir almennri bílaumferð eða umferð almenningssamgangna. 

Fyrir Reykvíkinga eru almenningssamgöngur næst mikilvægasti málaflokkurinn en nær ekki inn á lista fimm mikilvægustu málefna hjá íbúum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Akureyringar leggja mesta áherslu á atvinnumál. 

Nærri jafnmargir með og á móti einkabílnum

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve - RÚV

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu skiptast í tvo nærri jafn stóra hópa þegar þeir eru látnir velja milli aðgerða í þágu bílaumferðar (40,2%) eða almenningsvagna (44,4%).

En skoðum þetta eftir sveitarfélögum. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve - RÚV

 

Hlutfallslega stærsta hóp þeirra sem leggja áherslu á einkabílinn er að finna á Seltjarnarnesi, næst flestir eru í Hafnarfirði og svo í Garðabæ og Kópavogi. Stærsti hópur þeirra sem leggur áherslu á almenningssamgöngur er í Reykjavík, þá Mosfellsbæ og á Akureyri. 

Skoðum höfuðborgarsvæðið nánar. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve - RÚV

 

Hlutfallslega stærsta hóp þeirra sem leggja áherslu á einkabílinn er að finna í Grafarvogi, næst flestir eru í Árbæ og svo í Grafarholti og Úlfarsárdal. Stærsti hópur þeirra sem leggur áherslu á almenningssamgöngur er í miðborginni, þá í Austurbænum og Breiðholti.  

„Það er svona meira að íbúar hallist að einkabílnum þegar fjær kemur vesturbæ og miðbæ,“ segir Rúnar.

Könnunin var lögð fyrir tæplega tvö þúsund manns í mars og apríl. Ríflega átta hundruð svöruðu.