Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skrefið út í atvinnumennsku verið ótrúlega krefjandi

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Skrefið út í atvinnumennsku verið ótrúlega krefjandi

11.05.2022 - 17:31
Þegar þátttaka á EM kvenna í fótbolta í sumar er í húfi er mikilvægt að vera í leikformi. Landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir gerði í dag lánssamning við Breiðablik út júní frá þýska úrvalsdeildarliðinu Frankfurt. Tilgangurinn með láninu er að spila meira í aðdraganda EM.

Alexandra sem er 22 ára hefur átt fast sæti í íslenska landsliðhópnum síðustu þrjú ár og hefur nú leikið 23 A-landsleiki og skorað þrjú mörk. Hún hefur spilað með þýska liðinu Frankfurt síðustu tvær leiktíðir, en er nú komin á lán til Breiðabliks þar sem hún lék áður en hún fór til Þýskalands.
„Ég er búin að spá í þessu í smá tíma já. Miðað við mínúturnar sem ég er búin að vera fá hjá Frankfurt fannst mér þetta besta lausnin,“ segir Alexandra. Þá 
segir hún að skrefið, út í atvinnumennsku til Þýskalands hafi verið ótrúlega krefjandi. „Erfitt en ótrúlega gott líka finnst mér, þannig ég er alveg sátt en þetta hefur verið ótrúlega krefjandi.“

Alexandra fer ekkert í felur með það að lánssamninginn við Blika geri hún með það að leiðarljósi að halda sæti sínu í landsliðinu, enda lokakeppni EM á næsta leyti. Hún hafði því meðal annars rætt næstu skref við Þorstein Halldórsson landsliðsþjálfara. „Þetta var svo sem ekkert í samráði við Steina en það kom frá honum að ég þyrfti að spila meira og þá fannst mér þetta besta lausnin til þess að fá fleiri mínútur en auðvitað þarf ég að sanna mig hjá Breiðabliki líka. Þannig ég hef nokkra leiki til að reyna að komst inn í liðið,“ segir hún.

Alexandra spilar væntanlega sinn fyrst leik í Bestu deildinni með Breiðabliki á móti KR á föstudag og er spennt að spila í deildinni á ný. „Mér líst bara vel á þetta. Auðvitað eru margir góðir leikmenn farnir en aðrir leikmenn stíga upp þannig ég er bara ótrúlega spennt fyrir þessu,“ segir Alexandra að lokum.

Viðtalið við Alexöndru og fréttina í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.