Senda bréf vegna ofbeldis meðal ungmenna á Akureyri

11.05.2022 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Lögreglan, Barnavernd Eyjafjarðar og Akureyrarbær hafa sent foreldrum grunnskóla í bænum bréf vegna öldu ofbeldis meðal ungmenna. Eru foreldrar hvattir til að ræða við börn sín um ábyrgð og hættu af slagsmálum.

Myndskeið af slgsmálum á samfélagsmiðlum

Foreldrar ungmenna á Akureyri fengu í morgun bréf frá skólastjórum þar sem lögregla, barnavernd og Akureyrarbær ræða ofbeldi meðal ungmenna í bænum. Í bréfinu kemur fram að síðast liðna mánuði hafi borið á grófu ofbeldi. Þar segir að myndskeið af slagsmálum, þar sem unglingar eru oftast þátttakendur, gangi nú barna á milli á samfélagsmiðlum. Í myndböndunum má sjá endurtekin högg og spörk í líkama með tilheyrandi hættu. 

Þátttakendur eru oftast unglingar á grunnskólaaldri og má sjá í myndböndum endurtekin högg og spörk í líkama andstæðings sem augljóslega skapar mikla hættu 

Í bréfinu er leitað eftir samstarfi við foreldra og forráðamenn til að snúa við útbreiddu viðhorfi sem virðist vera um að líkamsárásir sem þessar séu eðlileg og jafnvel eftirsóknarverð hegðun; ræða hætturnar sem fylgja ofbeldi og minna á mikilvægi þess að tilkynna til lögreglu ef ungmenni verða vör við slagsmál eða vita af slíku. 

Hvetja til umræðu milli foreldra og barna

„Við biðlum til foreldra og forráðamanna að ræða við ungmenni um þá ábyrgð og hættu sem fylgir því að taka þátt í slagsmálum. Að brýna fyrir þeim ábyrgðina sem fylgir því að vera áhorfandi eða á staðnum þegar slíkt ofbeldi á sér stað. Mikilvægt er að brýna fyrir unglingum að taka ekki þátt í slíkum slagsmálum, fylgja ekki ofbeldissíðum á samfélagsmiðlum og alls ekki að dreifa á milli sínslagsmálamyndböndum," segir í bréfinu.