Rússneskum skipum bannað að koma í íslenskar hafnir

Mynd með færslu
 Mynd: Birkir Blær Ingólfsson - RÚV
Þetta gildir um farþega- og flutningaskip sem eru 500 brúttótonn eða stærri, skemmtiferðaskip og lystisnekkjur. Bannið tók gildi á föstudag.

Annar rússnesku togaranna sem verið hefur í Hafnarfjarðarhöfn er farinn og hinn fer í næstu viku. Rússar hafa í mörg ár veitt úthafskarfa á Reykjaneshrygg og frá 1999 hafa þeir verið á undanþágu til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum. Sú undanþága var numin úr gildi í byrjun mars, skömmu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.  Lúðvík Geirsson hafnarstjóri Hafnarfjarðar segir að í fyrra hafi tekjur af viðskiptum við Rússa verið um 50 milljónir króna. Fyrirtæki hér á landi hafa haft tekjur af þjónustu við rússnesk sjávarútvegsfyrrtæki. Þannig hafa skipasmíðastöðvar leitað til íslenskra fyrirtækja með tækni og vélar. Hampiðjan er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur séð rússneskum togurum fyrir veiðarfærum. Hjörtur Erlendsson forstjóri segir að viðskiptin við Rússa hafi verið 6-7 milljónir evra í fyrra. Það gera um fjögur prósent af tekjum fyrirtækisins.
 

Arnar Björnsson