Mikil spenna og skjálftavirkni á Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Um 1800 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í síðustu viku. Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár á Veðurstofunni sagði á ráðstefnu norrænna jarðfræðinga að það ætti ekki að koma á óvart að eldgos verði á skaganum á næstu árum.

Um 350 manns sækja ráðstefnuna sem hófst í Háskólabíói í morgun. Kristín Jónsdóttir hefur stýrt stórum hópi jarðvísindamanna sem fylgst hafa með umbrotum á Reykjanesskaga á undanförnum mánuðum.  Hún sagði í lokaorðum sínum að ekki megi útiloka eldgos.

 „Já ég segi það vegna þess að við höfum séð mörg eldstöðvakerfi taka við sér frá 2020. Frá því að eldgosinu í lauk í Fagradalsfjalli verður greinileg innskotavirkni í desember sem var aðeins um helmingur af þeirri kviku sem kom fyrir gosið.  Það sem við sjáum núna er að stórt svæði er að þenjast út. Dýpið á kvikunni er í kringum 15-16 kilómetrar.  Það er mikil spenna eftir öllum skaganum og skjálftavirknin er mikil.  Í síðustu viku mældum við um 1800 skjálfta á Reykjanesskaganum".  Hvað segir það okkur?  „Það segir okkur að þarna er töluverð spenna sem eykur líkur á innskotavirkni.  Þessi kvika sem er að malla þarna undir þessari stökku skorpu finnur sér leið á endanum inn í skorpuna. Það gæti auðvitað endað með eldgosi".  Er hægt að segja til um það hvenær það gæti orðið?   „Það er ómögulegt að segja til um það" segir Kristín Jónsdóttir.  

 

 
 

Arnar Björnsson