Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hart tekist á um innviði og rekstur í Árborg

Mynd: Andri Yrkill Valsson / RÚV
Frambjóðendur í Árborg tókust hart á um rekstur og innviði í sveitarfélaginu á framboðsfundi RÚV fyrir sveitarstjórnarkosningarnar n.k. laugardag. Ágreiningurinn var einkum á milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem er í minnihluta, og fulltrúa þeirra fjögurra flokka sem mynda meirihlutann.  

Fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurlandi

Tæplega 11 þúsund manns búa í Árborg og fjölgaði um tæp 4% í fyrra. Árborg er stærsta sveitarfélagið á Suðurlandi og þar hafa Eyrarbakki, Stokkseyri, Sandvíkurhreppur og Selfoss verið saman í sveitarfélagi í um 24 ár. 

Bæjarfulltrúum fjölgað í ellefu

Níu eru í bæjarstjórn í Árborg. Saman í meirihluta  eru fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Miðflokks og Áfram Árborgar. Fjórir fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru í minnihluta. Sex framboð eru í Árborg þetta vorið, listarnir fimm sem eiga bæjarfulltrúa og að auki Vinstrihreyfingin grænt framboð. Bæjarfulltrúum fjölgar nú um tvo, verða ellefu í stað níu áður. 

Miklir vaxtarverkir

Árborg er meðal þeirra bæjarfélaga sem hafa stækkað mikið síðustu ár og misseri og því fylgja vaxtarverkir. Spurt er hvort innviðirnir haldi i við vöxtinn. Skólp frá Árborg fer út í Ölfusá og þar hefur í mörg ár verið talað um misbrest á hreinsun. Svartsýnir menn tala um heitavatnsskort á næstu misserum. 

Bærinn fékk ekki nóg fyrir eignir

Vinstri hreyfingin grænt framboð á ekki fulltrúa í  bæjarstjórn, en Sigurður Torfi Sigurðsson efsti maður á V listans segir að gríðarleg áskorun bíði næstu bæjarstjórnar. Hún þurfi að ná tökum á fjármálum bæjarfélagsins og að ná í skottið á innviðauppbyggingunni.

Vandinn nái aftur fyrir síðasta kjörtímabil. Bærinn hefði ekki fengið nóg fyrir eignir t.a.m. í miðbænum. Fyrir þá peninga hefði mátt byggja skólphreinsstöð, íþróttahús eða skóla. 

Bærinn stjórni vaxtarhraðanum, ekki fjárfestar

Tómas Ellert Tómasson oddviti M-lista Miðflokks og sjálfstæðra segir að ótrúlega vel hafi gengið með uppbygginguna í Árborg á síðasta kjörtímabili eftir það bú sem meirihlutinn tók við eftir átta ára valdaferil Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu. Fjármálastjórnin þá hafi holað sveitarfélagið að innan þannig að það var ekki tilbúið að takast á við fjölgun íbúa.

Kostulegt sé að hlusta á tal Sjálfstæðisflokksins um ábyrga fjármálastjórnun Sjálfstæðisflokkurinn hafi ráðið sveitarstjórnarstiginu í tugi ára um land allt. Uppsafnað tap sveitarfélaga á öllu landinu sé uppreiknað á núvirði 500 milljarðar króna. Brýnasta verkefni sveitarfélagsins er að það sé sjálft við stjórnvölinn við vaxtarhraða Árborgar, en ekki fjárfestar. 

Litið á Árborg sem víti til varnaðar

Bragi Bjarnason efsti maður á D-lista Sjálfstæðisflokks, sem er í minnihluta,  segir að rekstur sveitarfélaga sé mjög víðfeðmur. En þegar kemur að uppbyggingu og skipulagi í Árborg þá sé gott að taka Mosfellsbæ til samanburðar.  Mosfellsbær hafi vaxið á svipuðum hraða og Árbær, ef ekki hraðar. Þar byggist bærinn mikið upp á einkalandi.

Árborg ákvað að borga innviðauppbygginguna, í stað þess að í samningum við verktaka, þar sem sveitarfélagið hafi öll spil á hendi, sé samið við þá um að þeir taki þátt í innviðauppbyggingunni. Sjálfstæðisflokkurinn er við völd í Mosfellsbæ þar sem þetta sé gert með góðum árangri. Litið sé á Árborg sem víti til varnaðar í þessum málum. 

Fólk vill flytja til Árborgar

Arna Ír Gunnarsdóttir oddviti S lista samfylkingar segir sorglegt að hlusta á málflutning Braga. Vel hafi verið að málum staðið í Árborg. Íbúum hafi fjölgað um 28% á fimm árum. Sá vöxtur er til kominn vegna þess að fólk vill flytja í sveitarfélagið. Það sækir i lífsgæði sem þar eru. Þessum mikla vexti þýðir hraðari uppbygging innviða.

Fólk bíður ekki eftir því að koma börnum í skóla og leikskóla. Þeir sem þekkja til fjármála sveitarfélaga vita að tekjurnar koma inn eftir á. Tekjurnar koma ekki um leið og sveitarfélagið þarf að standa klárt með innviðina. 

Sveitarfélagið að ná vopnum sínum aftur

Arnar Freyr Ólafsson, oddviti B lista Framsóknarflokks segir að sveitarfélagið sé að ná aftur vopnum sínum í þeim vaxtarverkjum sem fylgja hraðri uppbyggingu og fjölgun íbúa. Áformað er að byggja upp skóla, leikskóla, íþróttaaðstöðu og bæta stjórnsýslu.

Í fjárhagsáætlun sést að tekjur munu skila sér inn. Þó skuldastaðan sé há núna þá verði hún það ekki til eilífðarnóns. Með fjölgun íbúa fylgir sú áskorun að ná í nægt heitt og kalt vatn, en framtíðin sé björt í Árborg.  

Íbúarnir hafi áhrif oftar en á fjögurra ára fresti

Axel Sigurðsson fulltrúi Á lista Áfram Árborg segir að miklum vexti fylgi vaxtavirkir. Á listinn er að mestu skipaður aðfluttu fólki í sveitarfélaginu og stendur að mörgu leiti fyrir nýbúa bæjarins. Hann segist ekki hafa miklar áhyggjur af þessum öra vexti sveitarfélagsins.

Á listinn leggur mikla áherslu á íbúalýðræði, að íbúar hafi áhrif á sitt nærsamfélag oftar en á fjögurra ára fresti.  Hann segir að allra mikilvægast að fulltrúar listanna í komandi bæjarstjórn geti unnið saman, samfélaginu til heilla.  

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV