Ensku oft kennt um málbreytingar að ástæðulausu

Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV / RÚV

Ensku oft kennt um málbreytingar að ástæðulausu

11.05.2022 - 11:30

Höfundar

Það virðist algengt að fólk kenni ensku um þegar því mislíkar eitthvað í málfari annarra. Áhrifum ensku er til dæmis oft kennt um þegar sagt er: Ég er ekki að skilja þetta, í stað: Ég skil þetta ekki. Það er þó dæmi um tilbrigði í máli fólks sem virðist ekki hægt að rekja til málsambýlis við ensku, að sögn Irisar Eddu Nowenstein sem rannsakaði, ásamt fleirum, málsambýli ensku og íslensku.

Þegar breytingar verða í málinu er oft erfitt að henda reiður á hvað veldur þeim. Það er ekki alltaf auðvelt að ákvarða hvort þær eiga upptök til dæmis í máltöku barna eða hvort það má rekja þær til málsambýlis við önnur tungumál. Síðan í seinni heimsstyrjöldinni hafa íslenska og enska verið í málsambýli sem hefur svo á síðustu áratugum, með snjalltækjavæðingunni, orðið meira áberandi, að sögn Irisar Eddu.

Ég er ekki að skilja þetta er ekki enska

„Við eigum það til að benda á tengingu við ensku án þess að hún sé endilega til staðar. Fólk til dæmis nefnir oft það sem kallað hefur verið útvíkkað dvalarhorf: Ég er ekki að skilja þetta. Þetta er bara enska, segir fólk. En málið er að þetta er ekkert bara enska. Það er ekki til sambærilegur breytileiki í ensku.“ Þarna sé á ferðinni málbreyting sprottin úr formgerðum sem eru til í íslensku nú þegar, til dæmis í setningum eins og: Ég er að bíða eftir strætó. „Þessi formgerð er bara útvíkkuð í merkingu og fer að ná til fleiri sagna. Þannig að þetta er dæmi um eitthvað sem fólk hefði geta haldið að væri tengt auknu málsambýli við ensku en er það ekki,“ segir Iris Edda.

Svo virðist sem áhrif ensku séu einkum á orðalag íslensku en minni á málkerfið sjálft. Það virðist skipta mestu máli hvernig hlúð er að málinu, fremur en að leitast sé við að einangra íslensku frá þessu sambýli. „Við sáum í rannsókninni okkar að það sem hafði meiri úrslitaáhrif þegar kom að því að halda í hefðina og málstaðalinn var bara jákvæð viðhorf til tungumálsins. Ekki bara til íslensku heldur líka til ensku,“ segir Iris Edda.

Rætt var við Irisi Eddu Nowenstein, talmeinafræðing og doktorsnema í íslenskri málfræði, í Orði af orði á Rás 1 sunnudaginn 8. maí. 

Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Raskar ekki málkerfinu að tala um aprílgöbb