Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir fylliefnabransann vera eins og villta vestrið

10.05.2022 - 18:38
Mynd: Bragi Valgeirsson / Skjáskot
Engar reglur eru um notkun fylliefna í fegurðarskyni hér á landi, ólíkt því sem tíðkast í grannlöndunum. Lýtalæknar lenda ítrekað í því að lagfæra slíkar aðgerðir og vilja að komið verði á eftirliti.

Húð- og lýtalæknar bjóða upp á meðferð með fylliefnum í fegrunarskyni og  það gera einnig fjölmargir aðrir sem ekki eru með læknismenntun. Hægt er að kaupa fylliefni víða, meðal annars á vefsíðum á borð við Ali Express, en hér á landi eru þau ekki skilgreind sem lyf.

„Mér skilst að þau séu flokkuð sem fæðubótarefni,“ segir Hannes Sigurjónsson lýtalæknir og formaður Félags íslenskra lýtalækna. 

Hvaða reglur gilda um þá sem veita meðferð með fylliefnum? „Það eru í rauninni engin lög. Þetta er bara villta vestrið hérna á Íslandi.“

Hafa beðið um reglur og eftirlit í tíu ár

Hannes segir að víða í nágrannalöndunum sé notkun fylliefna takmörkuð við lækna eða hjúkrunarfræðinga undir eftirliti lækna. Félag íslenskra lýtalækna hefur í mörg ár krafist slíks eftirlits af hálfu heilbrigðisyfirvalda og mun á næstunni senda erindi þess efnis til heilbrigðisráðherra. „Árið 2012 var byrjað að ræða þetta við heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytið. Málið var sagt vera í skoðun, en það hefur lítið gerst,“ segir Hannes sem segir félagið vera í samstarfi við Félag íslenskra húðlækna um að setja þrýsting á heilbrigðisráðuneytið um að setja reglugerð.“

Sjúkraflutningamaður, snyrtifræðingur og námskeið

Fréttastofa hafði samband við nokkra þeirra sem auglýsa ísprautun fylliefna á samfélagsmiðlum og spurði um menntun og leyfi viðkomandi til að veita slíka þjónustu. Einn þeirra sem haft var samband við sagðist vera sjúkraflutningamaður, annar sagðist vera snyrtifræðingur og sá þriðji sagðist hafa farið á námskeið, en tiltók ekki frekar hvers konar eða hvað hefði verið kennt þar.

Þá var spurt um verð. Einn millilítri, sem er algengur skammtur af fylliefni þegar sprautað er í varir, kostar á þeim stofum sem kannaðar voru frá 25.000 krónum, en algengt verð hjá húð- og lýtalæknum er 60- 70.000 krónur. 

„Oft er þetta gert á snyrtistofum eða stofum sem eru opnaðar með þennan eina tilgang,“ segir Hannes. „En út af því að það er ekkert eftirlit vitum við það ekki og það mætti hver sem er opna svona fylliefnastofu og fara að sprauta í fólk.“

Ég fæ persónulega inn til mín 2-4 skjólstæðinga á mánuði sem hafa fengið ófullnægjandi meðferð eða meðferð sem ekki hefur gengið vel og þá þarf að leysa upp efnið, ef það er hægt.

Hvernig hefur meðferðin verið ófullnægjandi? „Til dæmis sprautað of mikið, sprautað á ranga staði. Við höfum fengið, hér á þessari stöð, skjólstæðing þar sem var grunur um að efnið hefði farið inn í slagæð og við náðum í tæka tíð að leysa upp efnið og það varð sem betur fer enginn varanlegur skaði af því.“

Hvað hefði getað gerst ef efnið hefði ekki verið leyst upp? „Ef efnið fer í slagæð, getur það valdið húðdrepi og þá missir einstaklingurinn hluta af húðinni,“ segir Hannes.

En núna er ýmis meðferð veitt af fólki sem er ekki læknismenntað - til dæmis húðflúrun, afhverju ekki þetta? „Húðflúrun er vissulega ífarandi meðferð, en ekki á sama hátt og fylliefni,“ segir Hannes. „Við húðflúrun er farið í efstu húðlögin, en þegar fylliefnum er sprautað er farið í gegnum húðlögin, í gegnum fitulagið - jafnvel í gegnum vöðva og inn að beini. Þar á leiðinni eru æðar og taugar þannig að þetta er mun meira inngrip en húðflúr.“