Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Markaðir brugðist of hart við

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Gengi hlutabréfa í kauphöllum hefur víða lækkað talsvert síðustu daga. Greinandi telur markaði hafa brugðist full harkalega við ytri aðstæðum, sér í lagi sá íslenski.

Á Íslandi lækkaði úrvalsvísitalan til að mynda um rúmlega þrjú prósent í gær og lækkun herjaði einnig á kauphallir víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Snorri Jakobsson, framkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, segir ástæður lækkunarinnar tvíþættar. Annars vegar sé von á miklu framboði nýrra hlutabréfa inn á markaðinn þar sem Ölgerðin og Nova hyggi á skráningu á næstu vikum. Auk þess hafi nýlegt lokað hlutafjárútboð Íslandsbanka aukið framboðið. „Menn hafa kannski verið að selja bréf til þess að eiga fyrir þessu hlutafé.“ 

Hins vegar hafi verið gefnar út dökkar hagvaxtarhorfur erlendis, auk þess sem mörg ríki hafi hækkað vexti til að bregðast við aukinni verðbólgu.  „Víða, sérstaklega í framleiðsluríkjum, eru horfurnar nokkuð dökkar en mér finnst menn hafa gengið full mikið fram af sér á Íslandi. Vegna þess að Ísland er fyrst og fremst hrávöruframleiðandi. Þannig að við framleiðum fyrst og fremst fisk og ál, sem hefur hækkað alveg gríðarlega í verði. Verð á áli og fiski er í sögulegum hæðum,“ segir Snorri.

Hann segir því erfitt að átta sig á af hverju íslenski markaðurinn gefi svo mikið eftir.  „Markaðurinn er, eins og ég hef sagt áður, dramadrottning og á til að bregðast of hart við. Mér hefur þótt hann bregðast aðeins of hart við núna síðustu tvo til þrjá viðskiptadaga.“

Úrvalsvísitala aðalmarkaðar kauphallarinnar hefur lækkað um rúmlega sextán prósent frá áramótum.