Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margir kjósa eftir afstöðu framboða til vindorkuvera

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Bætt íþróttaaðstaða, möguleg vindorkuver og skólahald í heimabyggð eru meðal þess sem kjósendur í Borgarbyggð velta fyrir sér fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn.

Sveitarfélagið Borgarbyggð varð til 2006 með sameiningu þáverandi Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps og Kolbeinsstaðahrepps. Þar bjuggu 3.745 árið 2018 og nú búa þar 3.868.

Borgarbyggð er dreifbýlt sveitarfélag með nokkrum þéttbýliskjörnum, og þeirra stærstur er Borgarnes. Fjórir flokkar bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga. 

Uppbygging íþróttamannvirkja langþráð

Kjósendur velta ýmsum málum fyrir sér nú þegar kosningar nálgast. Eitt þeirra er betri aðstaða til íþróttaiðkunar. Langþráð íþróttahús í Borgarnesi komst á fjárhagsáætlun á nýliðnu kjörtímabili. Af framkvæmdinni á þó eftir að verða og útiaðstaða knattspyrnudeildar Skallagríms þarfnast sömuleiðis endurbóta. 

„Við eigum rosalega fallegt fótboltasvæði hér yfir sumartímann en knattspyrnan er bara orðin heilsársíþrótt. Það er verið að spila og keppa allan veturinn og þar erum við ekki með neina aðstöðu, hvorki til æfinga né til keppni,“ segir Oddný Eva Böðvarsdóttir, stjórnarmaður í knattspyrnudeildinni.

Þverárhlíð og Norðurárdalur kjósa eftir afstöðu til mögulegra vindorkuvera

Húsnæðismálin eru ekki síður ofarlega í huga kjósenda. Sérstaklega í Borgarnesi þar sem vantar sárlega meira íbúðarhúsnæði. Þá er fólk að velta fyrir sér skipulagsmálunum og hvaða afstöðu framboðin hafa til mögulegra vindorkugarða í Norðurárdal.

Áætlanir eru uppi um tvö vindorkuver í Norðurárdal. Þær eru mislangt komnar en fráfarandi sveitarstjórn hefur sett ákvarðanatöku á ís meðan endurskoðun á aðalskipulagi fer fram. 

„Bara segja hvort að menn standi með þessu eða ekki. Ég held að Norðurárdalur og Þverárhlíð muni svolítið kjósa eftir hvar flokkarnir standa þar,“ segir Jóhann Harðarsson ferðaþjónustubóndi í Norðurárdal.

Grunnskólakennsla er á fjórum stöðum; Borgarnesi, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Framtíð sveitaskólanna hefur verið til umræðu og segir Jóhann íbúa vilja að þeir haldist opnir. 

„Það eru krakkar á þessu svæði, þau eru hálftíma í skólabílnum, sem sagt klukkutíma á dag. Það skiptir gríðarlegu máli ef það fer að lengjast um korter eða tuttugu mínútur aðra leið.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir