Flókið að sækja endurnýjanlegu orkuna sem allir vilja

10.05.2022 - 15:12
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Með aukinni umhverfisvitund stóreykst krafan um endurnýjanlega orku. Sama umhyggja fyrir umhverfinu gerir það sífellt flóknara að afla slíkrar orku. Forstjóri Landsvirkjunar segir að eina leiðin til að takast á við loftslagsmálin sé að virkja og stórauka framboð á endurnýjanlegri raforku.

Á Samorkuþingi, sem haldið er á Akureyri 9. og 10 maí, er meðal annars rætt um orku framtíðarinnar hvaðan hún kemur og hvert hún fer.

„Hornsteinninn í rekstri Landsvirkjunar er vatnsaflið“

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að vatn, jarðvarmi og vindur verði áfram helstu kostir við framleiðslu raforku á umhverfisvænan hátt.„Hornsteinninn í rekstri Landsvirkjunar er vatnsaflið. Þannig að við sjáum vonandi fyrir okkur áframhaldandi uppbyggingu þar. Þá munum við líka fara í að stækka virkjanirnar, fá meira uppsett afl til að geta mætt meiri sveiflum í rekstrinum. Jarðvarminn, sérstaklega eins og á Þeistareykjum og í Kröflu, teljum við bara mjög farsæla uppbyggingu. Síðan er vindurinn mjög spennandi, það eru mikil tækifæri í að byggja upp þar. En það þarf bara að skýra út hvernig samfélagið vill leyfa þá uppbyggingu.“

Sterk umhverfisvitund og alls staðar andstaða gegn virkjunum

Sterkur hagvöxtur, orkuskipti, græn atvinnustarfsemi og fleiri nýjar þarfir samfélagsins kalli á sífellt aukna orku. Hins vegar verði sífellt erfiðara að ráðst í orkuöflun, umhverfisvitundin sé mikil og alls staðar í heiminum sé andstaða gegn virkjunum. „Þannig að þetta er ákveðin mótsögn eða „dilemma“ sem samfélög eru í. Hvernig eigum við að leysa þetta stóra umhverfisverkefni, loftslagsvána, þegar við þurfum að fara í framkvæmdir sem hafa áhrif á náttúruna í nærsamfélaginu,“ segir Hörður.

Eina leiðin að stórauka sókn í endurnýjanlega orku

Verkefnið sé því flókið og vandasamt. „Við þurfum að ræða þetta og við þurfum að velja bestu svæðin, við þurfum að vanda okkur. En hinsvegar ef við ætlum að takast á við loftslagsmálin þá er engin önnur leið heldur en að stórauka endurnýjanleg raforkuvinnslu.“

Hlusta má á lengra viðtal við Hörð Arnarson í spilaranum hér að ofan.