
Ekki í aðstöðu til að meta fullyrðingar um fölsun
Framboðið Reykjavík, besta borgin sendi frá sér yfirlýsingu á sjötta tímanum í dag þar sem oddviti og aðrir ábyrgðarmenn framboðsins harma umræðuna um undirskrift sem Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, fullyrðir að sé fölsuð. Hún hafi ekki samþykkt að skipa sæti á framboðslista flokksins.
Í yfirlýsingu Bestu borgarinnar segir að ábyrgðarmennirnir séu ekki í aðstöðu til að meta fullyrðingu um fölsun. Óánægja Birgittu komið þeim á óvart og þeim þyki mjög miður. Innan framboðsins standi nú yfir rannsókn á meðferð gagna í aðdraganda þess að listum yfir meðmælendur og frambjóðendur var skilað.
Undir yfirlýsinguna skrifa Gunnar H. Gunnarsson oddviti, Örn Sigurðsson sem skipar annað sæti á listanum og kosningastjóri E-listans, Guðmundur Óli Scheving. Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Gunnari í dag en án árangurs. Þá hafnaði Örn beiðni fréttastofu um viðtal. Flokkurinn hyggst boða til fundar með fjölmiðlum á morgun.
Y F I R L Y S I N G
Við undirritaðir ábyrgðarmenn framboðsins Reykjavík besta borgin, hörmum þá umræðu sem komin er upp um óánægju aðila í 24. sæti með setu á framboðslistanum og um fullyrðingar þess aðila um fölsun undirskriftar.
Við erum ekki í aðstöðu til að meta fullyrðingu um fölsun undirskriftar á þessari stundu. Óánægja þessa aðila kemur okkur á óvart og þykir okkur mjög miður.
Rannsókn stendur yfir innan framboðsins á meðferð gagna í aðdraganda að skilum á listum yfir meðmælendur annars vegar og hins vegar listum yfir frambjóðendur þann 8. apríl s.l. Við höfum staðið í þeirri góðu trú að listarnir séu réttir.
Yfirkjörstjórn hefur úrskurað að framboðið Reykjavík, besta borgin sé gilt. Framboðið mun því halda áfram að kynna málefnin og taka þátt í kosningabaráttunni. Við munum leggja okkur fram um að eiga gott samstarf við Yfirkjörstjórn Reykjavíkur.
Viringarfyllst
Gunnar H Gunnarsson
Guðmundur Óli Scheving
Örn Sigurðsson