Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dómsmálaráðherra segir ástandið ótækt og boðar fjölgun

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæsla Íslands
Þriðjung ársins er einungis ein áhöfn á vakt hjá þyrslusveit Landhelgisgæslunnar. Ekki tókst að manna sveitina vegna veikinda í morgun. Dómsmálaráðherra segir þetta óboðlegt og vill fjölga þyrluflugmönnum Gæslunnar.

Gæslan harmar atvikið

Alvarlegt bílslys varð undir Eyjafjöllum skömmu eftir klukkan ellefu í morgun. Einn var í bílnum og var hann fluttur á Landspítalann í Reykjavík til aðhlynningar. 

Vegna veikinda var ekki hægt að manna þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, og því þurfti að flytja hinn slasaða með sjúkrabíl, um tveggja klukkustunda leið. Þyrla færi sömu vegalengd á sirka hálftíma.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að Gæslan harmi atvikið. Flugstjóri á vakt veiktist og ekki náðist að finna annann til að leysa hann af.

Ein áhöfn á vakt þriðjung ársins

En hvernig getur verið að það sé ekki önnur áhöfn til taks? „Hluta ársins, stærsta hluta ársins, er Landhelgisgæslan með tvær áhafnir til taks, einn þriðja hluta ársins er Gæslan með eina vakt eins og var í dag,“ segir Ásgeir. „Við þessar kringumstæður í gegnum tíðina þá hefur Gæslan getað leitað á náðir frábærs starfsfólks, sem hefur þá getað hlaupið til af sinni frívakt, en því miður þá tókst það ekki í dag.“

Jón Gunnarsson segir að þetta sé ekki ásættanlegt. „Nei nei, þetta er ekki ásættanleg staða. Svona atvik eiga ekki að koma upp og við munum reyna að beita öllum ráðum til þess að þetta endurtaki sig ekki,“ segir Jón.

Áform um fjölgun þyrluflugmanna í fjármálaáætlun

Jón bendir á að í fjármálaáætlun sé gert grein fyrir þörf á að auka fjármagn til Gæslunnar svo hægt sé að fjölga vöktum úr sex í sjö. 

Munum við þá sjá það gerast, að það verði fjölgað? „Ég ber væntingar til þess,“ segir Jón.

Ásgeir segir að viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar hafi þegar verið bætt frá því sem áður var. „Stjórnvöld hafa stigið mjög stór skref til þess að auka getu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, bæði hefur þyrlukosturinn sjálfur verið uppfærður og í fyrra var áhöfnum fjölgað úr fimm í sex,“ segir Ásgeir. „En því er ekki að leyna að með fleiri áhöfnum væri hægt að auka viðbragðsgetuna enn frekar,“ segir Ásgeir. Landhelgisgæslan vilji sjá það gerast.

Ótengt kjaradeilu þyrluflugmanna

Flugmenn Landhelgisgæslunnar hafa verið án kjarasamnings í tæp tvö og hálft ár. Þeir segja að ef farið verður að kröfum fjármálaráðuneytisins sé vegið að flugöryggi. Fjármálaráðuneytið segir það fráleitt. Mönnun þyrlusveitarinnar í dag tengist ekki kjaradeilunni.