Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skólinn og málefni aldraðra á oddinum fyrir kosningar

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Skólamál og málefni aldraðra eru ofarlega á baugi hjá kjósendum í nýju sameinuðu sveitarfélagi Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.

Þetta er í fyrsta skipti sem kosið er í sameinuðu sveitarfélagi Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. 1235 bjuggu í sveitarfélögunum tveimur 2018, nú búa þar 1290. Sveitarfélögin ganga nú í eina sæng en hafa starfað náið saman í gegnum tíðina.

Tveir listar bjóða fram í enn ónefndu sveitarfélaginu og brenna ýmis málefni á kjósendum. Þar á meðal skólamál en aðkallandi þykir að bæta húsnæði grunnskólans í Stykkishólmi. Aðstaða er úr sér gengin og þakið lekur. 

Úr sér genginn og allt of lítill grunnskóli

Skólinn er líka sprunginn og stofur þaulsetnar. Á Amtsbókasafninu er sýningarsalur nú orðinn kennslustofa áttunda bekkjar. Ásdís Árnadóttir segir rýmið ekki henta til kennslu, enda ekki hannað til þess. 

„Hann var náttúrulega gerður sem ljósmyndasalur og lýsingin er ljósmyndasalslýsing. Það er ekkert opnanlegt fag í þessum sal.“

Hún bætir við að ástandið hafi verið slæmt í langan tíma. 

„Við erum bara orðin langþreytt á því að heimta viðbygginguna okkar og við verðum að fá fleiri kennslustofur, það er alveg á hreinu.“ 

Vilja húsnæði fyrir aldraða í anda stúdentagarða

Málefni aldraðra eru einnig kjósendum ofarlega í huga. Átján hjúkrunarrými færast af höndum sveitarfélagsins yfir á Heilsugæslu heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Við það losnar húsnæði sem óráðið er hvernig skal nýtt. 

„Við myndum vilja sjá svona lífstílsíbúðir í stíl við eins og verið er að tala um, stúdentagarða, og að bæjarstjórnin myndi í sameiningu við ríkisstjórnina fá inn pening,“ segir Halldóra Sverrisdóttir varaformaður félags eldri borgara í Stykkishólmi. 

Fjárhagsstaða Stykkishólmsbæjar er slæm. Vonast er til þess að hagurinn vænkist við rúmlega sex hundruð milljóna framlag úr jöfnunarsjóði við sameininguna. Halldóra segir það þó ekki í hendi.

„Það var talað um fyrir sameininguna að þá kæmu inn svo miklir peningar. en þeir koma svo dreift á mörgum árum svo kannski verður ekki mikið hægt að gera.“