Samgöngumálin ofarlega í huga íbúa Fjallabyggðar

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Samgöngumál eru íbúum í Fjallabyggð sérstaklega hugleikin í aðdraganda kosninga enda falla reglulega snjóflóð og grjótskriður á vegina. Sveitarstjórnarfulltrúar mættu einnig huga meira að húsnæðismálum að mati heimafólks.

Samnýting mikil eftir tilkomu Héðinsfjarðarganga

Samgöngumál hafa lengi verið íbúum Fjallabyggðar ofarlega í huga enda kannski hægt að segja að sveitarfélagið sé til vegna samgöngubóta, Héðinsfjarðarganga.

Siglufjarðarbær og Ólafsfjarðarbær sameinuðust í eitt sveitarfélag árið 2006 þegar bygging ganganna hafði verið tryggð. Samnýting er mikil á milli bæjanna, til að mynda er einn grunnskóli fyrir öll börn sveitarfélagsins.

Íbúar upplifa óöryggi

Þegar Jón Hrólfur Baldursson, rakari, er spurður að því hvert helsta kosningamálið sé koma samgöngumálin honum fyrst til hugar.

Snjóflóð og grjóthrun falla reglulega á vegina í sveitarfélaginu og þrátt fyrir Héðinsfjarðargöng upplifa íbúar á ferðinni mikið óöryggi. 

Valgerður Þorsteinsdóttir, verslunareigandi, tekur undir mikilvægi þess að bæta vegakerfið. „Auðvitað þarf að laga, það þarf að fá önnur göng beggja vegna. Við erum dálítið lokuð, innilokuð ef það er snjóflóðahætta eða grjóthrun, þetta er ekkert öryggi, alls ekki.“

Skortir húsnæði

Íbúar í sveitarfélaginu eru 1977. Þrír listar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum, Listi jafnaðarfólks og óháðra, Sjálfstæðisflokkur og H-listi fyrir heildina.

Þéttbýliskjarnarnir tveir byggja afkomu sína að mestu leyti á sjávarútvegi. Síðustu ár hefur ferðaþjónustu vaxið fiskur um hrygg, aðallega á Siglufirði. Fjölbreytni í atvinnulífi hefur því aukist en íbúum þykir skorta húsnæði.

„Mér finnst húsnæðislega séð, finnst mér vanta húsnæði, það þýðir ekkert bara að trekkja fólk að og eiga síðan ekkert fyrir það fólk sem flytur í bæinn,“ segir Valgerður.

Jón Hrólfur Baldursson, segist verða var við þá umræðu. „Nú tala ég bara um það sem ég heyri mest í stólnum en það er mikið af eldri borgurum sem tala um að það vanti íbúðir fyrir eldri borgara, svona minni íbúðir.“

Anna Þorbjörg Jónasdóttir