Pussy Riot er hér á landi

09.05.2022 - 13:50
epa08180529 A member of Russian feminist punk group Pussy Riot performs during a concert on at the Summer Censorship Festival in Sao Paulo, Brazil 30 January 2020.  EPA-EFE/FERNANDO BIZERRA JR
 Mynd: EPA
Rússneska pönkhljómsveitin og aðgerðahópurinn Pussy Riot er hér á landi til þess að undirbúa tónleikaferðalag sitt um Evrópu. Hópurinn verður á Íslandi í eina viku og æfir í Þjóðleikhúsinu áður en hann heldur sína fyrstu tónleika í Berlín.

Listamaðurinn Ragnar Kjartansson er hópnum innan handar hér á landi en segir aðspurður að ekki standi til að framkvæma gjörning á Íslandi.

Meðlimir hópsins eru feministar sem berjast fyrir margvíslegum réttindum og eru harðir andstæðingar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Þær hafa verið ofsóttar af rússneskum stjórnvöldum fyrir pólitíska afstöðu sína.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir að þær séu ekki hér á landi sem flóttamenn en að öðru leyti getur ráðuneytið ekki veitt upplýsingar um einkahagsmuni fólks.

Pussy Riot stefnir á að halda tónleika á Íslandi í haust. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir