Lögreglan ekki vanhæf til að rannsaka fréttamenn

default
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra um að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra og staðgengill hans séu ekki vanhæf til að fara með rannsókn á meintum brotum gegn friðhelgi Páls Steingrímssonar skipstjóra.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur rannsakað þjófnað á síma Páls og að byrlað hafi verið fyrir honum. Þar er einn einstaklingur undir grun en lögreglan boðaði fjóra fréttamenn einnig til skýrslutöku vegna meintra brota gegn friðhelgi Páls vegna gagna sem væri að finna í símanum. Þrír fréttamannanna höfðu fjallað um samskipti svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja sem hafði samræmt atlögu að fréttamönnum sem fjölluðu um framgöngu Samherja í Namibíu og ásakanir um lögbrot fyrirtækisins og stjórnenda þess.

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, krafðist þess að Héraðsdómur Norðurlands eystra kvæði upp úr um hvort lögreglan væri vanhæf til að fara með rannsóknina. Hún vísaði til ummæla Eyþórs Þorbergssonar, staðgengils lögreglustjóra, í greinargerð til dómstólsins og í viðtali við Vísi. Dómstóllinn sagði ummælin óviðeigandi og óheppileg en að þau yllu ekki vanhæfi hans. Þá sagði dómarinn að mögulegt vanhæfi undirmanns myndi ekki valda vanhæfi Páleyjar Borgþórsdóttur lögreglustjóra. Þessa niðurstöðu staðfesti Landsréttur. 

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, hafði áður látið reyna á lögmæti aðgerða lögreglunnar fyrir dómstólum. Héraðsdómur Norðurlands eystra komst að þeirri niðurstöðu að lögreglan mætti ekki kalla hann til skýrslutöku með stöðu sakbornings en Landsréttur vísaði því máli frá dómi.

Leiðrétt 10:53 Upphaflega sagði ranglega að Landsréttur hefði snúið niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli Aðalsteins Kjartanssonar. Hið rétta er að hann vísaði málinu frá dómi.