
Líkir Rússlandi við Þriðja ríkið í Þýskalandi
Rússar minnast þess á morgun að 77 ár verða liðin frá sigrinum á þriðja ríki nasista. Mikil hersýning verður í Moskvu í tilefni dagsins.
Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands mun láta framangreind orð falla í ræðu á morgun að sögn breskra fjölmiðla sem hafa eintak af ræðu hans undir höndum. Jafnframt mun hann segja að örlög Pútíns og helstu samverkamanna hans verði þau sömu og nasistanna.
Þeir biðu ósigur í stríðinu og helstu framámenn hlutu þunga dóma fyrir athæfi sitt, við stríðsréttarhöld í Nürnberg. Wallace mun segja að þannig fari einnig fyrir Pútín sem hafi gert sömu mistök og einræðisherrar síðustu aldar.
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti segir að Rússar muni hafa ósigur líkt og hið illa hafi alltaf gert. Hann lét þau orð falla í ávarpi sínu í kvöld auk þess sem hann sagði að nær væri fyrir Rússa að fagna friði líkt og allt eðlilegt fólk gerði.