
Byrja að byggja í Grímsey þó enn vanti tugi milljóna
Kirkjan kostar 100-120 milljónir
Miðgarðakirkja í Grímsey brann til grunna á svipstundu í september á síðasta ári. Mikil sorg ríkti meðal eyjaskeggja en strax daginn eftir brunann sannmæltust Grímseyingar um að byggja nýja kirkju og hófu söfnun. Kirkjan er tryggð fyrir 30 milljónir og ríkisstjórnin hefur styrkt verkefnið um 20 milljónir. Þá hafa hinir ýmsu söfnunarviðburðir farið fram þar sem safnast hafa nokkrar milljónir. En betur má ef duga skal því nýja kirkjan verður nokkuð stærri en sú sem brann og gera áætlanir ráð fyrir því að hún muni kosta 100 til 120 milljónir.
Sjá einnig: Kirkjan í Grímsey var tryggð fyrir tæpar 30 milljónir
Brúðkaup sumarið 2023
Arna Björg Bjarnadóttir verkefnisstjóri er bjartsýn á að með áframhaldandi söfnun takist að fjármagna verkefnið. „Smiðir koma út í eyju strax á mánudaginn í næstu viku og byrja að smíða nýja kirkju,“ segir Arna.
Það er töluvert sem uppá vantar, hvernig sjáið þið fyrir ykkur að brúa það?
„Það voru t.d. styrktartónleikar í síðustu viku í Akureyrarkirkju, það eru fleiri kórar og söfnuðir og félagasamtök sem hafa verið að safna. Stærri fyrirtæki eru núna að koma sterkari inn og leggja þessu lið og svo bara munar líka um þessa einstaklinga sem líka hafa verið að leggja þessu lið þannig að við svona miðað við hvernig gengur þá erum við nokkuð bjartsýn. Við erum núna komin upp með söfnunarsíðu, Grímsey.is/kirkja.“
Hvenær reikarðu með að þarna verði hægt að halda næstu fermingar og brúðkaup?
„Heyrðu það verður sumarið 2023“