Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ánægð að koma vænghafi og skammdegisskuggum að

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ánægð að koma vænghafi og skammdegisskuggum að

09.05.2022 - 09:58

Höfundar

Einlægni og að orðin fljóti vel með laglínunni eru aðalatriðin þegar kemur að góðri textasmíð að mati Lovísu Elísabetar Sigrúnardóttur, laga- og textahöfundi íslenska Eurovision lagsins í ár, Með hækkandi sól.

Það hlýtur að teljast nokkuð afrek að koma orðunum öldurót, sorgarsár, skammdegisskuggar, næturhúm, klakabönd og vænghaf að í þriggja mínútna söngtexta en þetta afrekaði Lovísa í íslenska laginu í ár. „Já, ég var frekar ánægð með það,“ segir hún einlæg um þessi fallegu og sjaldan notuðu orð, sem óma nú á öllum útvarpsstöðum en einnig af stóra sviðinu í Eurovision. „En það sést líka alveg á stílnum að ég er undir miklum áhrifum frá skáldkonum fyrri tíða eins og Undínu sem ég held mikið upp á.“

Fyrst samdi hún lagið og mótaði svo textann að laglínunni. „Ég vildi passa að hendingarnar væru í góðu flæði en kæmi samt sögunni til skila. Þetta tók nokkrar tilraunir en small saman rétt fyrir upptökur,“ útskýrir hún. 

Textasmíðin dró hana í þjóðfræði
Eins og fram hefur komið fjallar textinn um konur á öldum áður, sem voru fastar í vistarbandi og þrá þeirra eftir frelsi. Raunar má heimfæra frelsisþrána í laginu á fólk í hinum ýmsu aðstæðum, eins og Systur og Lovísa hafa talað um hér í Tórínó.

En já, vistarböndin í grárri forneskju, sem sungið er um hafa haft töluverð áhrif á Lovísu, sem stúderar nú þjóðfræði. „Ég ákvað að skella mér í nám á þessum sérstöku tímum þegar minna var að gera í spilamennskunni. Það má segja að textinn hafi haft áhrif á valið. En ég hef gaman af sögum og ýmsum mannlegum hliðum lífsins,“ segir Lovísa og bætir við að þjóðfræðin sé heillandi nám sem henni lítist firnavel á.

Bragi Valdimar Skúlason formaður hjá STEF segir að umræddur texti Lovísu sé sérlega vel heppnaður. „Hann er tiltölulega formfastur án þess að vera í rígbundnu máli. Hann er bæði þungur og seiðandi og felur líka í sér einhverja þjóðlega taug, dálítið eins og gömul vögguvísa eða þula. Samanber allt þeiþeiið, klakaböndin og svo auðvitað hækkandi sólina sem við tengjum held ég öll við hér í vetrarmyrkrakompunni okkar,“ útskýrir Bragi og bætir við að svo sé hann líka svo skrambi söngvænn. „Sem sést best á því að hann er nú þegar sunginn í skólum og úti um allar trissur. Og hjálpar okkur inn í sumarið og birtuna,“ segir Bragi.  

Óvenju mörg móðurmál í ár
Í Eurovision keppninni í ár eru 15 af 40 lögum flutt á öðru tungumáli en ensku sem er hæsta hlutfallið síðan 2013. Eitthvað er enskan á undanhaldi eftir nokkur góð ár en mögulega hefur sigurlagið frá því í fyrra, sem flutt var á ítölsku, einhver áhrif þar á.

Systur hafa sagt að það skipti þær máli að syngja á íslensku, fáir tali tungumálið og því skipti máli að nota það, breiða út boðskapinn. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, var inntur eftir skoðunum á málinu. „Mér hefur alltaf fundist sjálfsagt að syngja á móðurmálinu í þessari keppni og sé svo sem ekki tilganginn í því að taka þátt í henni ef það er ekki gert. Til hvers að stefna saman fólki frá fjölmörgum þjóðum ef öllu er steypt í sama mót í stað þess að draga fram sérkenni hverrar þjóðar?“ spyr hann og bætir við að tungumál sé eitt af því sem greinir þjóðir að, móti sjálfsmyndina og ætti því sannarlega að fá að njóta sín á þessum vettvangi. „Mér finnst um að gera að nýta þetta tækifæri til að vekja athygli á málinu og einstökum orðum sem kunna að þykja forvitnileg,“ segir Eiríkur. 

Bragi Valdimar tekur í svipaðan streng og Eiríkur varðandi móðurmál í Eurovision. „Í heimi sem verður sífellt einsleitari er mikilvægt að sýna að við erum alls konar og höfum öll okkar sérstöðu. Við þurfum ekki öll að syngja á ensku bara til að falla í hópinn. Hjá okkur er tungumálið auðvitað sterkur hluti af sjálfsmynd okkar og mér finnst ótrúlega fallegt og dýrmætt að systkinin standi með því. En það er þeirra val og á ekki að vera nein krafa,“ segir Bragi Valdimar.

Sterk og jákvæð viðbrögð Euronörda

Lovísa segir að íslenski textinn fái sterk og jákvæð viðbrögð. „Fólki finnst æðislegt að fá að heyra íslenskuna og skilaboðin í laginu virðast ná í gegn. Við höfum svo enska þýðingu sem fólk getur lesið til að fá innihaldið en lagið hljómar alltaf best bara á íslensku að mínu mati,“ segir hún.

Eiríkur bendir á að tungumál í textasmíðum íslenskra listamanna hafi alltaf gengið í bylgjum. „Ég skil svo sem vel að tónlistarfólk vilji nota ensku til að koma sér á framfæri erlendis og geri engar athugasemdir við það. En eins og ýmis dæmi sýna er það ekki alltaf nauðsynlegt, hvað þá nokkur trygging fyrir velgengni,“ segir hann og bætir við í lokin að óvísindalegt mat hans á tónlist dagsins í dag sé að töluvert sé um að tónlistarfólk semji á íslenskunni. 

Með hækkandi sól 

Öldurót í hljóðri sál
Þrautin þung umvafin sorgarsárum
Þrá sem laðar, brennur sem bál
Liggur í leyni – leyndarmál – þei þei

Í ljósaskiptum fær að sjá
Fegurð í frelsi sem þokast nær
Þó næturhúmið skelli á
Og ósögð orð, hugan þjá – þei þei

Í dimmum vetri – hækkar sól
Bræðir hjartans klakabönd – svo hlý
Í dimmum vetri – vorið væna
Vermir þitt vænghaf á ný

Skammdegisskuggar sækja að
Bærast létt með hverjum andardrættir
Syngur í brjósti lítið lag
Breiðir úr sér og andvarpar – þei þei

Í dimmum vetri – hækkar sól
Bræðir hjartans klakabönd – svo hlý
Í dimmum vetri – vorið væna
Vermir þitt vænghaf á ný

Og hún tekst á flug
Svífur að hæstu hæðum
Og færist nær því
Að finna innri ró

Í dimmum vetri – hækkar sól
Bræðir hjartans klakabönd – svo hlý
Í dimmum vetri – vorið væna
Vermir þitt vænghaf á ný

Lag og texti: Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir

Systur, Sigga, Beta og Elín, á sinni annarri sviðsæfingu í Tórínó á Ítalíu.
 Mynd: EBU

Tengdar fréttir

Menningarefni

Smáatriði hjá Systrum sem þarf að tímasetja upp á hár

Menningarefni

Systurnar þöglar um trans fána í útsendingunni

Menningarefni

Systrum bannað að segja „Slava Ukraini“

Menningarefni

Mjög sáttur við að vera fjórða systirin