Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

WHO telur 15 milljónir hafa látist af völdum COVID-19

08.05.2022 - 06:25
epa09927811 A couple walks on the street amid the ongoing Covid-19 lockdown in Shanghai, China, 05 May 2022. Shanghai city reported 13 COVID-19 deaths, 261 locally transmitted cases, and 4.390 local asymptomatic infections, according to the Shanghai Health Commission on 5 May 2022.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að rekja megi andlát fimmtán milljóna manna til smita af völdum kórónuveirunnar. Það er þrisvar meira en opinberar tölur gefa til kynna en stofnunin telur að þrettán prósent fleiri hafi látist undanfarin tvö ár en í meðalárum.

Opinberar tölur benda til að 5,4 milljónir jarðarbúa hafi látist af völdum sjúkdómsins en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðhæfir að mörg ríki hafi vantalið fjöldann mjög.

Til að mynda telja sérfræðingar stofnunarinnar að um þriðjung dauðsfallanna eða 4,7 milljónir megi rekja til Indlands. Það væri þá tífalt það sem þarlend stjórnvöld hafa gefið upp.

Indversk stjórnvöld segjast hafa áhyggjur af aðferðafræði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins má sjá svipaðar niðurstöður í fleiri rannsóknum.

Stofnunin beitir þeirri aðferð að reikna út hversu mikið fleiri létust en alla jafna hefði mátt búast við á sama svæði áður en faraldurinn skall á. Einnig er tekið tillit til dauðsfalla sem ekki beinlínis má rekja til sjúkdómsins heldur afleiðinga hans.

Það á meðal annars við um þegar veikt fólk hefur ekki komist að á sjúkrahúsum. Eins er horft til takmarkaðrar skráningar og lítillar sýnatöku í upphafi faraldursins. Þó segja sérfræðingar að langflest dauðsföll umfram opinberar tölur megi rekja til sjúkdómsins sjálfs en ekki óbeinna afleiðinga hans.