Vitað er að tveir fórust í sprengjuárás sem rússneskar hersveitir gerðu á skóla í þorpinu Bilohorivka í nótt. Reuters fréttastofan hefur þetta eftir Serhiy Gaidai héraðsstjóra í Luhansk.
Hann fullyrðir að minnst sextíu manns hafi farist en að níutíu hafi verið innandyra þegar sprengjan féll. Héraðsstjórinn segir að þrjátíu hafi þegar verið bjargað úr rústum byggingarinnar.
Rússnesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um árásina né hafa upplýsingar héraðsstjórans verið staðfestar með öðrum heimildum. Loftvarnaflautur ómuðu um alla Úkraínu nú í bítið samkvæmt frétt úkraínska miðilsins Kyiv Independent.
Líklegt þykir að ögurstund blasi við þeim úkraínsku hermönnum, meðal annars úr Azov-hersveitunum, sem enn eru til varnar við stálverksmiðju í Mariupol.
Rússneska umsátursliðið hyggst í dag færa Vladimír Pútín Rússlandsforseta Mariupol sem sigurlaun í tilefni Sigurdagsins 9. maí að sögn Oleksiy Arestovych talsmanns Úkraínuforseta.
Þann dag minnast Rússar sigurs yfir Þýskalandi við lok síðari heimsstyrjaldar árið 1945. Stálverksmiðjan er síðasta vígi Úkraínumanna í Mariupol en alger yfirráð borgarinnar tryggja landbrú frá Krímskaga til þeirra héraða í austanverðri Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar ráða ríkjum.
Volodymyr Zelensky ræðir í dag við leiðtoga G7 ríkjanna, gegnum fjarfundabúnað, en hann óttast að sóknarþungi innrásarliðsins aukist enn eftir að almennum borgurum var bjargað úr stálverksmiðjunni í Mariupol.