Íslenski hópurinn neikvæður og Systur fara á svið

Fyrsta æfing Systra, Siggu, Betu og Elínar í Pala Olimpico höllinni í Tórínó
 Mynd: EBU

Íslenski hópurinn neikvæður og Systur fara á svið

08.05.2022 - 11:52

Höfundar

Íslenski Eurovision hópurinn fór í Covid próf fyrir utan Höllina snemma í morgun og fékk þær góðu fréttir að ekkert smit sé til staðar. „Það gekk allt að óskum í morgun. Við gleðjumst auðvitað yfir því að allt sé í lagi og þá er á hreinu að við komumst með Systur á svið á þriðjudagskvöld“, segir Felix Bergsson fararstjóri íslenska hópsins. Já, sjaldan hefur verið jákvæðara að vera neikvæð.

RAI ítalska ríkissjónvarpið skikkar alla þátttakendur í Covid test á 72ja tíma fresti en neikvætt próf í morgun þýðir  þess vegna að íslenski hópurinn er sloppinn fyrir vind og fer á svið á þriðjudag. „Undirbúningur gengur mjög vel og við ætlum að taka næstu daga með trompi,“ segir Felix en hópurinn æfði atriðið á hótelinu strax að loknu Covid prófi.

Eins og einhverjir muna kom upp Covid smit í íslenska hópnum í fyrra rétt fyrir opnunarhátíðina sem hafði svo þau áhrif að Daði Freyr og Gagnamagnið stigu ekki á svið í Rotterdam heldur var önnur sviðsæfing þeirra spiluð í keppninni. En við skulum ekki tapa okkur í sögunni, staðreynd málsins er sú að Systur verða í þráðbeinni útsendingu af sviðinu í vikunni.

Eurovision hátíðin, sú 66. sem haldin er, hefst formlega í dag með opnunarhátíð og bláa dreglinum, sem aðdáendur keppninnar eru farnir að þekkja. Að þessu sinni er opnunarhátíðin haldin í ítalskri höll Venaria Reale, sem er staðsett í norðurhluta Tórínó. „Í kvöld gleðjumst við því með öðrum þjóðum í glæsilegu umhverfi. Alvaran hefst svo í fyrramálið en annað kvöld er dómararennsli sem er ekki síður mikilvægt en keppnin sjálf á þriðjudag,“ útskýrir Felix en atkvæði dómara gilda til helmings á við símaatkvæði almennings.

Opnunarhátíðinni verður streymt gegnum miðla Eurovision en hún hefst klukkan 14 að íslenskum tíma. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Smáatriði hjá Systrum sem þarf að tímasetja upp á hár

Menningarefni

Systurnar þöglar um trans fána í útsendingunni