Mæta ekki í skólann vegna líkamsárásar og hótana

Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson / RÚV
Nemandi í Flensborgarskóla sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás fimm samnemenda segir skólayfirvöld ekkert bregðast við og hann treysti sér ekki til að mæta í skólann. Nemendafélag Flensborgarskóla segja yfirvöld skólans ekki bregðast við alvarlegum líkamsárásum og einelti nemenda í skólanum í garð samnemenda.

Eftir að tilkynnt var á miðvikudaginn á Erla Sigríður Ragnarsdóttir settur skólameistari Flensborgarskólans hefði hlotið skipun í embættið sendi stjórn nemendafélagsins ráðuneytinu erindi og mótmæltu skipuninni og sögðu ekki tekið á ofbeldis- og eineltismálum í skólanum. Í mótmælaskyni mættu margir nemendur ekki í skólann í gær, svona 70 til 80 telja nemendur. Nokkrir foreldrar ræddu ástandið á fundi í gær og hyggjast boða fleiri foreldra til fundar. 

„Ofbeldi er bara leyft að viðgangast innan skólans og að ekkert sé gert í málinu fyrr en þau eru opinberuð, segir Unnur Elín Sigursteinsdóttir í stjórn nemendafélagsins. 

Þegar þið ræðið við skólayfirvöld, hvernig eru viðbrögðin?

„Það er bara ekkert, við fáum ekki neitt til baka. Þú veist þetta er bara eins og að tala við vegg.“

Fimm nemendur í skólanum hafa verið kærðir fyrir alvarlega líkamsárás. Það er í rannsókn hjá lögreglu. Þeir gengu í skrokk á tveimur nemendum skólans eftir árshátíð nemendafélagsins í mars. Árásin var gerð  fyrir utan Hagkaup í Garðabæ. Þolendurnir voru fluttir á sjúkrahús. Þeir og foreldrar þeirra eru ekki ánægðir með viðbrögð skólans. 

Hvernig brugðust skólayfirvöld, hvernig studdu þau við þig?

„Bara ekki neitt“, segir Arnór Elís Albertsson nemandi í Flensborgarskóla. „ég fékk ekki neitt. Og það er mjög erfitt að tala við skólann og Erlu og allt, að gera eitthvað í málinu.“

En foreldrar þínir, hafa þau líka óskað eftir aðstoð skólans?

„Oft. Margoft, bara hvort að það gæti eitthvað gerst meira, en það gerist ekkert.“

Hann og hinn sem ráðist var á hafa lítið treyst sér til að mæta í skólann eftir árásina. Árásarmennirnir eru enn í skólanum. Tvö vitni að árásinni hafa jafnframt lítið treyst sér til að mæta að gefnu tilefni:

„Bara hótanir og svona alls konar vitleysa sem enginn ætti að ganga í gegnum.“ segir Heiða Lóa Ívarsdóttir nemandi í Flensborgarskóla. 

Hún hefur oft leitað til skólastjórnenda:

„Ég get ekki einu sinni komið frá mér orði. Það eru bara þau að tala endalaust og ég get ekki sagt neitt. Ég talaði einmitt við stjórnina, skólastjórnina um það að það væri ekki í lagi að við gætum ekki mætt en þeir eru allir að mæta. Þau sögðu bara að það er ekkert sem við getum gert í því.“

Arnór Elís vill að skólayfirvöld bregðist þannig við að hann geti mætt í skólann, líði vel og sé öruggur: 

„Það er bara ekki það sem er að gerast núna. Ég vil bara ekki mæta í skólann.“

Hvað viljið þið að breytist?

„Bara að það sé hlustað á okkur og að það sé tekin afstaða í ofbeldis- og eineltismálum innan skólans. Kannski byrja á því að hægt sé að tilkynna einelti inn á heimasíðunni. Það er enginn staður inn á heimasíðu skólans þar sem þú getur tilkynnt einelti, sem ætti náttúrulega að vera regla númer eitt, tvö og þrjú á öllum stofnunum, fyrirtækjum og skólum,“ segir Unnur Elín Sigursteinsdóttir í stjórn nemendafélagsins. 

Ekki náðist í skólameistara fyrir fréttir. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Flensborgarskóli.