Ekkert nema meðmæli ef biskup færi á eftir grínista 

Mynd: RÚV / RÚV

Ekkert nema meðmæli ef biskup færi á eftir grínista 

07.05.2022 - 10:38

Höfundar

„Ég held að sprengikrafturinn í gríninu, ástæðan fyrir því að við hlæjum, er að það er alltaf pínulítil hætta,“ segir grínistinn Bergur Ebbi Benediktsson. Mörk húmors séu þó alltaf að breytast og til dæmis þætti fyndið í dag ef biskup færi á eftir grínistum eins og Spaugstofan lenti í fyrir aldamót. Á þeim tíma var það stórmál.

Bergur Ebbi Benediktsson er líklega best þekktur sem grínari, hann hefur skemmt þjóðinni bæði sem liðsmaður Mið-Íslands og með eigin uppistandi. Nú er hann með nýja uppistandssýningu í Tjarnarbíói. Bergur Ebbi ræðir um grín, hvernig hann nálgast það og hvernig húmorinn er síbreytilegur.  

Áskorun að vera svo lengi á sviði 

„Þetta er svolítil áskorun fyrir mig,“ segir Bergur Ebbi í samtali við Gunnar Hansson og Guðrúnu Gunnarsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1. „Ég hef ekki verið með uppistand þar sem ég býð fólki í heila kvöldstund og er bara einn.“ Þrátt fyrir að hafa mikla reynslu hefur ferlið verið mjög lærdómsríkt fyrir Berg Ebba. „Ég vissi ekkert hvernig þetta væri, að vera með svona langt prógram,“ segir hann. „En það er margt mjög jákvætt og þægilegt við það líka. Þá hefur maður tíma til að fara meira á dýptina.“  

Hann segir að það sé áskorun og áreynsla að vera svo lengi á sviði en um leið gefist honum tækifæri til að snerta á viðfangsefnum sem hann hafi ekki getað gert áður. „Eins og lengri persónulegar sögur og fara með fólk á einhvern stað,“ segir Bergur Ebbi. Hann segist reyna að forðast að grínast með málefni líðandi stundar. „Við erum búin að lifa svo mikið í því að taka einn dag í einu, sem er ágætis mottó, en við förum ekki nógu mikið á dýptina,“ segir hann og nefnir sem dæmi fjölmiðlahringinn sem tekur fyrir hneykslismál vikunnar og fer svo beint yfir í það næsta. „Auðvitað er gaman að fara í leikhús og heyra gert grín að því. En mig langaði til þess að gera eitthvað annað og þá þarf maður bara aðeins meiri tíma.“  

Ekki bara eitthvað sem verður dautt í vikunni 

Fer Bergur Ebbi þá ekki á dýptina í þjóðarsálina? „Ég nota eigin reynslu og það er hægt að spegla einhverja stærri sameiginlega reynslu upp úr því,“ segir hann. „En ég er ekki svo keikur að segja hér og nú að þetta sé ferðalag í gegnum þjóðarsálina.“ Markmiðið sé þó alltaf að áhorfendur geti speglað reynslu uppistandarans í sinni eigin og grínið verði þannig sammannlegra.  

Þrátt fyrir að uppistandarar reyni að skapa svokallað „heilsársgrín“ er engin leið að vita hvað muni endast og hvað ekki. „Bob Dylan samdi lög um mál líðandi stundar árin '63 og '64 og þau eru klassísk,“ segir hann. „En auðvitað stefnir maður á meira heilsárs en bara eitthvað sem verður dautt í vikunni.“  

Covid-brandararnir koma eftir 15 ár  

Oft vill það henda að þegar tími er liðinn frá harmleik verði hann fyndinn. Bergur Ebbi vill ekki dvelja of mikið í nostalgíunni en rifjar upp atvik úr æsku sinni sem á þeim tíma voru hálfdapurleg en eru vonandi sprenghlægileg í dag. „Svo er ég búinn að komast að því líka,“ segir hann og vísar í hvernig uppistandarar hafa gert grín að heimsfaraldrinum, „að ég held að covid-brandararnir komi bara eftir 15, 20 ár,“ segir Bergur Ebbi og á við þessa rosalega fyndnu brandara þar sem þetta tímabil er gert upp og samfélaginu líður vel með það. „Þetta stóra uppgjör við það hvernig samfélagið fór á hliðina, það er ekkert hægt að gera það núna.“ 

Húmor getur verið hverfult fyrirbæri og Bergur Ebbi segist finna að öldurnar rísi og hnígi þegar kemur að því hvað er fyndið. Hann man vel eftir augnablikinu þegar fólk hætti að hlæja að efnahagshruninu sem hafði þótt gífurlega sniðugt í þrjú ár. „Fólk var bara komið með lyst á einhverju öðru,“ segir hann. Núna sé til dæmis vinsælt að fjalla um kulnun og hvernig fólk sé að keyra sig út. „Þetta er ekkert endilega gamanmál, en það er ákveðinn flötur á þessu sem við þurfum aðeins að horfa í spegil með.“  

Voðinn vís ef ekki má gera grín að samfélaginu

Til er ósýnileg lína milli þess sem má og má ekki í húmor. Grínarar leika sér gjarnan með línuna og stökkva yfir hana. Hún færist til með tíð og tíma en það er spurning hvort viðkvæmnin sé meiri í dag en áður. „Ég hef oft pælt í þessu,“ segir Bergur Ebbi. „En þetta hefur alltaf verið svona og ég ætla ekki að fara að sitja hér og kvarta yfir því að þessi lína sé orðin óbærileg.“ Hann tekur sem dæmi þegar Spaugstofan lenti í vandræðum fyrir guðlast árið 1997 þegar gert var grín að síðustu kvöldmáltíðinni í páskaþættinum. „Núna er kannski aðeins öðruvísi aðhald. Í dag myndu allir hlæja að því ef Biskupsstofa væri á eftir grínista. Það væri ekkert nema meðmæli.“  

Bergur Ebbi segir að aðhald sé alltaf til staðar þrátt fyrir að það sé breytilegt hverjir veita það. „Ég held að sprengikrafturinn í gríninu, ástæðan fyrir því að við hlæjum, er að það er alltaf pínulítil hætta,“ segir hann og líkir við taugaspennu yfir því hvort verið sé að fara yfir einhverja línu. „Maður á að vera ánægður með að það séu mörk í samfélaginu því það er það sem grínið gengur út á. Að kanna hvar þessi mörk eru.“ Auðvitað hendi þau ósanngjörnu tilvik að einstaklingar fái aðeins of mikla gagnrýni fyrir saklausa brandara og þá standi hann með stéttinni sinni. „Því voðinn er vís ef það má ekki gera grín að hlutum í samfélaginu,“ segir hann en telur langsótt að samtíminn sé verri en fyrri tíð.  

Mögulegt lestarslys er aðdráttarafl uppistands 

Á uppistandi verður að vera svigrúm fyrir smá spuna og Bergur Ebbi segir að það sé aðdráttarafl slíkra sýninga; að allt geti gerst. „Jafnvel þó að þjálfaður uppistandari sé með þetta á lás allan tímann og viti nákvæmlega hvað hann er að gera, þá á áhorfandanum að líða eins og þetta sé alltaf á mörkunum að fara út af sporinu.“  

Rætt var við Berg Ebba Benediktsson í Mannlega þættinum á Rás 1. Hlýða má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Tímarnir okkar: Húkkuðum far með góðærislestinni