Vissu ekki að læknirinn væri ákærður fyrir ofbeldi

06.05.2022 - 10:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Læknirinn, sem ákærður var fyrir að beita konu sína og þrjú börn ofbeldi, hefur lokið störfum hjá Heil­brigðis­stofn­un Norður­lands. Forstjóri HSN segist hafa lesið um ákæruna í fjölmiðlum og ekki vitað um málið þegar maðurinn var ráðinn.

Aðalmeðferð í málinu síðar í maí

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni á Vestfjörðum fyrir áralangt ofbeldi gegn eiginkonu og þremur börnum. Maðurinn er læknismenntaður og í ákærunni segir meðal annars að hann hafi hótað konunni að binda enda á líf hennar með lyfjagjöf. Aðalmeðferð málsins verður við héraðsdóm Vestfjarða síðar í þessum mánuði. Morgunblaðið greindi svo frá því í gær að maðurinn starfaði hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.

Ofbeldi um áralangt skeið

Maðurinn er ákærður fyrir hegningarlagabrot og brot gegn barnaverndarlögum. Í ákærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að ofbeldið hafi staðið yfir um áralangt skeið. Það hafi hafist þegar konan var barnshafandi og samkvæmt ákærunni réðst maðurinn þá á konuna og hótaði henni lífláti ef hún færi af heimilinu. Hann er ákærður fyrir að hafa neitað henni um aðstoð þegar hún var fótbrotin og að hafa nokkrum sinnum hótað að drepa hana með því að gefa henni of mikið insúlín með fjarstýringu sem stýrir inngjöf, en hún er sykursjúk og að hafa læst hana inni þegar hún var lág í sykri þannig að hún óttaðist um líf sitt.

Lásu um málið í fjölmiðlum

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir í samtali við fréttastofu að læknirinn hafi starfað hjá stofnuninni í nokkra daga áður en málið kom upp:

Það var fyrir hálfum mánuði held ég sirka, hann er búinn að vera hérna við störf í hálfan mánuð. 

Hvenær hættir hann störfum ?

Hann hættir störfum í gær.

Var honum sagt upp eða segir hann sjálfur upp störfum?

Ég vill bara ekki tjá mig um það

Hvenær fáið þið veður af þessu máli?

Við í sjálfu sér sáum þetta bara í fjölmiðlum eins og aðrir.

Vissuð þið af þessu máli þegar hann var ráðinn inn?

 Nei, við vissum það ekki.