Landsliðið hefur þurft að leika heimaleiki í íþróttahöll Hauka að Ásvöllum í Hafnarfirði því ekki er til þjóðarhöll sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur. Borgarstjóri hefur sagt frá því að borgin hafi þegar tekið frá tvo milljarða til hallarinnar en bíði svars ráðherra.
Kjarninn sagði frá því í fyrradag að ríki og borg hefðu komist að niðurstöðu um hvort þjóðarhöll rísi í Laugardal. Fréttastofa bar þetta undir aðstoðarmann menntamálaráðherra sama dag sem kannaðist ekki við að niðurstaða lægi fyrir í málinu. En nú liggur fyrir samkomulag því klukkan 15.30 verður viljayfirlýsingin undirrituð.