Skagfirðingar velta fyrir sér framtíð landbúnaðar

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Framtíð landbúnaðar er Skagfirðingum hugleikin fyrir komandi kosningar. Einnig þurfi að standa vörð um þá þjónustu sem þegar er til staðar. Ýmis opinber þjónusta hefur verið skert þar á síðustu árum.

Kosið í fyrsta sinn í sameinuðu sveitarfélagi

Í Skagafirði verður í fyrsta sinn kosið í nýju sveitarfélagi sem enn hefur ekki fengið nafn. Íbúar munu samhliða sveitarstjórnarkosningum taka þátt í ráðgefandi skoðanakönnun og geta valið á milli nafnanna Hegranesþing, Sveitarfélagið Skagafjörður eða einfaldlega Skagafjörður. 

Sameining var samþykkt í kosningum 19. febrúar. Sveitarfélögin höfðu þá lengi verið í nokkrum samrekstri. Þar búa nú fjögur þúsund sjötíu og sex.

Í framboði eru fjórir listar; Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Byggðalistinn og Vinstri græn.

Stórar áskoranir í landbúnaði

Sauðárkrókur er langfjölmennasti íbúakjarninn en minni staðir eru Hofsós, Varmahlíð og Hólar. Í þéttbýlinu eru stórar útgerðir en bændasamfélagið er líka stórt í Skagafirði og áskoranir í landbúnaði eru íbúum ofarlega í huga.

Kolbrún María Sæmundsdóttir er hársnyrtir og bóndi í Skagafirði sem segir marga í hennar stöðu velta fyrir sér hvernig halda skuli sveitinni í byggð, hvort sem kemur að landbúnaðarmálum eða ferðaþjónustu í dreifbýlinu.

Gunnar Rögnvaldsson, forstöðumaður á Löngumýri í Skagafirði tekur í sama streng. „Þetta er landbúnaðarhérað, það verður örugglega á næstu fjórum árum koma stórar áskoranir varðandi landnýtingu og samkeppni um landnot. Landbúnaður gagnvart frístundabyggð.“

„Þurfum að standa vörð um læknisþjónustuna“

Talsverð eftirspurn hefur verið eftir húsnæði í þéttbýli og nokkuð verið byggt á Sauðárkróki og í Varmahlíð.

Kolbrún segir að það virðist vera að það vanta húsnæði. „Það virðist vera nóg atvinna því það vantar eiginlega fólk, það vantar fólk í störfin.“

Viðmælendur sögðu þó að það mætti reyna að fá fleiri opinber störf í sveitarfélagið og störf án staðsetningar, sem gætu komið útbyggðunum vel.

Gunnar segir sveitarfélagið löngu verið búið að missa alla fæðingarþjónustu. „Við verðum að standa vörð um þá lækna og læknisþjónustu sem hér er. Þetta er ekkert sjálfgefið, það þarf að vera vakandi.“

Anna Þorbjörg Jónasdóttir