Reyndu að slá á áhrif kommanna með komu Faulkners

Mynd: RÚV / RÚV

Reyndu að slá á áhrif kommanna með komu Faulkners

06.05.2022 - 14:40

Höfundar

Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner kom til Íslands árið 1955 þegar máttur vinstrimannanna í Máli og menningu og MÍR var mikill í bókmenntasamfélagi landsins. Bandarísk stjórnvöld reyndu, með tilstuðlan Almenna bókafélagsins, að sporna gegn áhrifum vinstrisins og sendu Faulkner til Íslands til að halda fyrirlestra og kynna „frjálsa menningu“.

Bókin Fulltrúi þess besta í vestrænni menningu var gefin út í fyrra. Í henni segir Haukur Ingvarsson frá Íslandsför Faulkners og lýsir þeim áhrifum sem kalt stríð austurs og vesturs hafði á íslensku bókmenntasenuna. 

„Hann var nú lengi hálfgert olnbogabarn í bandarískri menningu, fær Nóbelsverðlaun 1950 og verður síðan hluti af þessu stóra verkefni bandarískra stjórnvalda á sjötta áratugnum, sem er þá að tengja saman módernisma í myndlist og bókmenntum og vestrænt lýðræði og frelsi,“ segir Haukur í bókmenntaþættinum Kiljunni.

Reyndu að fá Hemingway

Haukur segir að Faulkner hafi komið til Íslands á mjög þýðingarmiklum tíma í íslenskri menningarsögu. Á þjóðhátíðardaginn 1955 var Almenna bókafélagið stofnað til höfuðs Máli og menningu enda höfðu vinstrimennirnir þar haft töglin og hagldirnar í íslensku menningarlífi um langt skeið. En strax eftir stofnun Almenna bókafélagsins gátu hægrimenn teflt fram Nóbelsverðlaunahafa til að sporna gegn áhrifum vinstrisins. Árið 1955 hafði Laxness ekki enn fengið Nóbelsverðlaunin og fáheyrt var að hingað til lands kæmu mikilsvirt skáld að halda fyrirlestra. 

„Maður sér það á skýrslum að þeir [Almenna bókafélagið] höfðu reynt að leggja snörurnar fyrir Hemingway, þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin, en það hafði ekki gengið eftir. Þannig að Bandaríkjamenn vissu að Íslendingar yrðu mjög spenntir fyrir því að fá Nóbelsverðlaunahafa hingað og rithöfund af þessu kalíberi. Og það sést í skýrslum sem þeir tóku saman, að þessi heimsókn var lengi svona viðmið í þeirra menningarstarfi,“ segir Haukur. 

„The Laxness-problem“

Bandaríkjamenn komust vel á skrið við að breiða út sitt frelsismiðaða fagnaðarerindi um leið og þeir náðu loksins vopnum sínum, eins og Haukur útskýrir. En nokkrum mánuðum eftir að Faulkner kom má segja að orðið hafi bakslag, Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum.

„Þá er farið að tala um í skýrslum sem Bandaríkjamenn taka saman, „The Laxness-problem“ og hvernig hægt sé að halda þessari heimsókn Faulkners vakandi í hugum Íslendinga, til þess að reyna að stemma stigu við þessum miklu áhrifum sem Laxness hafði í íslensku menningarlífi og þjóðlífi,“ segir Haukur. 

Skipanir að ofan

Menningartrúboð Bandaríkjamanna hér á landi var fyrirskipað af æðstu embættismönnum þar vestra. Bæði var menningarstarfsemin opinber og óopinber. Sú opinbera var rekstur skrifstofu á Laugavegi en síðan studdi C.I.A., leyniþjónusta Bandaríkjanna, skúffufélagið Frjálsa menningu sem laut umsjónar Almenna bókafélagsins. Það félag var raunar undirdeild samtakanna Congress for Culture of Freedom, sem starfrækt voru um hinn gervalla vestræna heim. 

Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu

En var Faulkner svo mikill hægrimaður og svo einarður í sínu trúboði fyrir ameríska menningu? Máske, en hann skrifaði gjarnan um dökka bletti á sögu landsins, eitthvað sem vakti hrifningu vinstrimanna hér á landi. Faulkner var Suðurríkjamaður sem í bjó sterk vitund um hörmungar þrælastríðsins og eftirmála þess.

„Þessi titill minn, Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu, það er sótt í Þjóðviljann. Þegar þeir vissu að Faulkner var að koma þá sögðu þeir: „Heyrðu, hérna er höfundur sem lýsir Bandaríkjunum eins og þau eru með þessari hræðilegu meðferð á svörtu fólki og þessari miklu stéttaskiptingu og hann er vissulega fulltrúi þess besta í bandarískri menningu“, en síðan er því náttúrulega svarað,“ segir Haukur.

Svipar til Íslendingasagnanna

Í bókum sínum skapar Faulkner mikinn sagnaheim þar sem bakgrunnur persónu í einni bók er síðan að finna í annarri bók og svo framvegis. Þannig fléttar hann saman örlögum persóna við sögusvið margra bóka og býr þannig til flókin tengsl milli persóna og bóka. Faulkner sagði sjálfur á fyrirlestri sínum hér á landi, að þegar hann hefði lesið Íslendingasögurnar hefði hann kannast við margt og fundist hann þekkja þær.

„Þeim hefur stundum verið líkt við Íslendingasögurnar, verkunum hans. Vegna þess að þetta er svona risastór sagnaheimur og ef hann vekur forvitni þína þá er erfitt að hætta, vegna þess að þú færð baksögu einnar aukapersónu í annarri smásögu og svona heldur þetta bara áfram,“ segir Haukur.

Mátti ekki drekka og setti upp fýlusvip 

Faulkner var lágvaxinn, svipmikill og drykkfelldur maður. Haukur sagði skondna sögu sem dæmi um hvernig bandaríska leyniþjónustan þurfti að hafa hemil á honum:

„Hún Kristín Claessen, sem er nú nýgengin, hún tók á móti honum á heimili sínu. Hún sagði að hann hefði verið með mikinn fýlusvip, enda hefðu verið tveir leyniþjónustumenn sem sáu bara um það að hann myndi ekki fá sér í glas,“ segir Haukur og brosir. 

Horfa má á viðtalið við Hauk í spilaranum hér að ofan, en lokaþátt Kiljunnar þennan veturinn má nálgast hér.