Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Indípopp með yndisbrag

Mynd með færslu
 Mynd: Post-dreifing - Supersport!

Indípopp með yndisbrag

06.05.2022 - 15:27

Höfundar

Breiðskífan Tveir dagar er runnin undan indísveitinni Supersport! Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Tveir dagar er fyrsta breiðskífa Supersport! en áður hefur komið út fimm laga stuttskífa, Dog Run, og nokkrar smáskífur. Liðsmenn tengjast allir listasamlaginu post-dreifing og hafa starfað með sveitum og listamönnum þar undanfarin ár. Í sveitinni eru Bjarni Daníel Þorvaldsson sem syngur og spilar á alls konar gítara, Dagur Reykdal Halldórsson ber húðir, Hugi Kjartansson spilar á sólógítar, Þóra Birgit Bernódusdóttir leikur á bassa og Þórður Hallgrímsson blæs í básúnu. Aðrir sem koma við sögu eru þau K.óla, Salóme Katrín, Flaaryr, Tumi Árnason og Jóhannes Bjarki Bjarkason. Árni Hjörvar Árnason tók upp en hann er einnig þekktur sem bassaleikari bresku hljómsveitarinnar The Vaccines.

Ímynd sveitar og fagurfræði dregur dám af sígildu indírokki og -poppi sem þreifst einkanlega í Bretlandi á níunda áratugnum og fram á þann tíunda. Pastels, Sarah Records útgáfan, C-86 stefnan o.s.frv. Saman við þetta er svo þrætt gömlu íslensku kammerpoppi og skandínavískri vísnatónlist. Og þriðja kryddið svo óvænt tilraunamennska, þegar minnst varir. Þessi görótti kokteill virkar fínt!

Dog Run var um margt nýstárlegt verk, þar sem fólk var ekki endilega að heykjast á framkomnum áhrifavöldum, og sama má segja um þetta nýja verk. Það er vel hægt að lýsa sveitinni út frá þessum skilgreiningarslóða sem ég er að skilja eftir mig en það markar sveitina samt alls ekki, eða pinnar hana niður. Supersport! er skapandi, m.ö.o.

„Hring eftir hring“ opnar plötuna, þekkilegt og ljúft nýbylgjupopp með glettnum texta. Flottar raddanir og glúrin smíð. Alls ekki augljós. Í „Uppi sófa“, sem K.óla syngur einnig, er unnið með áðurnefnda skandi-vinkla, ungt fólk að leika sér með „ímyndaða“ fortíð mætti segja. „Reykjavik culture night 2004“ býður upp á enn einn snúning þar sem gítarleikarinn og sólólistamaðurinn Flaaryr leggur til mjög einkennandi og skemmtilegan rafgítarleik.

Og svo má telja. „Song for my friend, June“ er æði, virkilega góð og falleg melódía þar og brugðið á leik með raddleiðréttingarforrit á einum stað. „Something New“ er hrátt og svefnherbergislegt, einn gítar og rödd í fjarska. Bjarni Daníel syngur og textinn einkar harmrænn verður að segjast. Virkilega fallegt lag. Supersport! leikur sér líka með andstæður. „Bregður lítil býfluga á leik“ endar með gítaróhljóðum en við tekur „Eitt lítið vorljóð“, alíslenskur og heimilislegur kórsöngur.

Vel heppnuð plata og öll hin stæðilegasta. Þetta er meira en „bara“ indí og ég verð líka að hrósa þykkum og góðum hljóm út í gegn sem hefur þetta enn meira upp. Stórgott stöff.