Slær á rétta strengi

Forseti Úkraínu ávarpar Alþingi og íslensku þjóðina á morgun um fjarfundabúnað. Hann hefur þegar talað til hátt í þrjátíu þjóðþinga og beðið ráðamenn um aðstoð vegna stríðsins í Úkraínu. Hann þykir fundvís á tengingar sem skipta áheyrendur máli.

Zelensky hefur einnig ávarpað fjölda alþjóðastofnana. Þar má nefna Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, leiðtogafund NATO og Leiðtogaráð ESB. Hann hefur nýtt þessi tækifæri til að koma málstað Úkraínu á framfæri. Zelensky hefur heldur ekki hikað við að gagnrýna viðkomandi ríki, ef honum finnst ástæða til.

Finnur oft skírskotun í sögu viðkomandi ríkis

Ræðum Zelensky hefur yfirleitt verið vel tekið, ekki síst þegar hann hefur fundið atburði í sögu viðkomandi ríkis sem hafa beina skírskotun í ástandið í Úkraínu. Það gerði hann til dæmis í ræðunni til breska þingsins þar sem hann vitnaði nánast orðrétt í fræga ræðu Winstons Churchill í síðari heimsstyrjöldinni.

Vitnaði í Churchill í Bretlandi og King í Bandaríkjunum

Þá ræðu hélt hann áttunda mars og var það fyrsta ræðan sem Zelensky hélt frammi fyrir þjóðþingi erlends ríkis. Vísunin í ræðu Churchills frá júní 1940 var engin tilviljun.

Hann kom næst fram á þjóðþingum Póllands og Kanada, og svo á Bandaríkjaþingi 16. mars, þar sem hann minnti þingheim á árásirnar á Pearl Harbor árið 1941 og tvíburaturnana 2001, og vísaði svo í orð Martins Luthers Kings um drauminn.

Síðan þá hefur Zelensky komið fram víða um heim. Ekki aðeins á þjóðþingum heldur einnig á samkomum alþjóðastofnana - hann ávarpaði til dæmis Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, og leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins og Evrópuráðsins. Hann hefur ítrekað þörfina á hernaðaraðstoð - þrýst á um samstöðu um harðari þvingunaraðgerðir gegn Rússum, og ekki hikað við að gagnrýna einstök ríki, finnist honum þau ekki hafa gert nóg. 

Skilaboðin til þingmanna og annarra eru í grunninn einföld: Úkraína þarf á hjálp ykkar að halda; samúð er ekki nóg - og Úkraínumenn eru að berjast fyrir ykkur.