
Slær á rétta strengi
Zelensky hefur einnig ávarpað fjölda alþjóðastofnana. Þar má nefna Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, leiðtogafund NATO og Leiðtogaráð ESB. Hann hefur nýtt þessi tækifæri til að koma málstað Úkraínu á framfæri. Zelensky hefur heldur ekki hikað við að gagnrýna viðkomandi ríki, ef honum finnst ástæða til.
Finnur oft skírskotun í sögu viðkomandi ríkis
Ræðum Zelensky hefur yfirleitt verið vel tekið, ekki síst þegar hann hefur fundið atburði í sögu viðkomandi ríkis sem hafa beina skírskotun í ástandið í Úkraínu. Það gerði hann til dæmis í ræðunni til breska þingsins þar sem hann vitnaði nánast orðrétt í fræga ræðu Winstons Churchill í síðari heimsstyrjöldinni.
Vitnaði í Churchill í Bretlandi og King í Bandaríkjunum
Þá ræðu hélt hann áttunda mars og var það fyrsta ræðan sem Zelensky hélt frammi fyrir þjóðþingi erlends ríkis. Vísunin í ræðu Churchills frá júní 1940 var engin tilviljun.
Hann kom næst fram á þjóðþingum Póllands og Kanada, og svo á Bandaríkjaþingi 16. mars, þar sem hann minnti þingheim á árásirnar á Pearl Harbor árið 1941 og tvíburaturnana 2001, og vísaði svo í orð Martins Luthers Kings um drauminn.
Síðan þá hefur Zelensky komið fram víða um heim. Ekki aðeins á þjóðþingum heldur einnig á samkomum alþjóðastofnana - hann ávarpaði til dæmis Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, og leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins og Evrópuráðsins. Hann hefur ítrekað þörfina á hernaðaraðstoð - þrýst á um samstöðu um harðari þvingunaraðgerðir gegn Rússum, og ekki hikað við að gagnrýna einstök ríki, finnist honum þau ekki hafa gert nóg.
Skilaboðin til þingmanna og annarra eru í grunninn einföld: Úkraína þarf á hjálp ykkar að halda; samúð er ekki nóg - og Úkraínumenn eru að berjast fyrir ykkur.