Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rússnesk herþyrla rauf lofthelgi Finnlands í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Petri Aaltonen - Yle
Rússnesk herþyrla rauf lofthelgi Finnlands í gær. Finnska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessu en þarlend stjórnvöld velta nú fyrir sér umsókn að Atlantshafsbandalaginu. Það gera Svíar sömuleiðis en skammt er síðan rússnesk herflugvél fór í óleyfi inn í lofthelgi þeirra.

AFP-fréttaveitan hefur eftir talsmanni varnarmálaráðuneytisins finnska að þyrlan, sem er af gerðinni Mi-17, hafi farið fjóra til fimm kílómetra inn fyrir lofthelgi landsins.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem rússnesk flugvél rýfur lofthelgi Finnlands en bæði atvikin urðu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Borgaraleg flugvél í þjónustu rússneska hersins fór inn fyrir lofthelgina skamma stund 8. apríl.

Á föstudaginn flaug rússnesk herflugvél inn í danska og sænska lofthelgi. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, kallaði rússneska sendiherrann á sinn fund vegna brotsins sem hann sagði algerlega óviðunandi í ljósi þeirrar spennu sem ríkir á svæðinu.

Carl-Johan Edström, yfirmaður sænska flughersins, sagði flughelgisrof Rússa alvarlegt brot.

Sérfræðingar telja að umsóknir Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu gætu leitt af sér hörð viðbrögð af hálfu Rússa. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hét í gær Svíum fullum stuðningi meðan á umsóknarferlinu stæði.