
Rússar æfðu notkun eldflauga sem borið geta kjarnavopn
AFP-fréttaveitan greinir frá þessu og vitnar í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins. Þar segir að í tilraununum hafi verið líkt eftir árásum á flugvelli gervióvinar, innviði og hernaðarbúnað ýmiss konar.
Í kjölfarið hafi Rússar gert tilraun með tilfærslu búnaðar síns til að komast hjá hefndarárásum óvinarins. Eins segir í yfirlýsingunni að hersveitir hafi æft viðbrögð við geislun og mengun af völdum efnavopna.
Um það bil 100 hermenn tóku þátt í æfingunum að því fram kemur í frétt The Guardian af málinu.
Fljótlega eftir að innrásin í Úkraínu hófst tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti að kjarnorkuvopnasveitir hersins hefðu verið settar í viðbragðsstöðu.
Rússneski blaðamaðurinn, ritstjóri Novaja Gazeta og friðarverðlaunahafinn Dimitrí Múratov, segir að um tveggja vikna skeið hafi þau skilaboð ómað úr sjónvarpstækjum Rússa að opna skuli neðanjarðarbyrgi þau sem geymi kjarnorkuvopn.