Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rússar æfðu notkun eldflauga sem borið geta kjarnavopn

epa09926921 Russian soldiers prepare heavy weapons at Tverskaya street during the rehearsal of the Victory Day parade in Moscow, Russia, 04 May 2022. Victory Day is held annually on 09 May and marks the defeat of Nazi Germany in 1945.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússnesk stjórnvöld segja hersveitir sínar hafa gert rafrænar æfingar með eldflaugar sem borið geta kjarnavopn í Kalíníngrad, rússnesku landsvæði sem liggur á milli Litháens og Póllands.

AFP-fréttaveitan greinir frá þessu og vitnar í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins. Þar segir að í tilraununum hafi verið líkt eftir árásum á flugvelli gervióvinar, innviði og hernaðarbúnað ýmiss konar.

Í kjölfarið hafi Rússar gert tilraun með tilfærslu búnaðar síns til að komast hjá hefndarárásum óvinarins. Eins segir í yfirlýsingunni að hersveitir hafi æft viðbrögð við geislun og mengun af völdum efnavopna.

Um það bil 100 hermenn tóku þátt í æfingunum að því fram kemur í frétt The Guardian af málinu.

Fljótlega eftir að innrásin í Úkraínu hófst tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti að kjarnorkuvopnasveitir hersins hefðu verið settar í viðbragðsstöðu.

Rússneski blaðamaðurinn, ritstjóri Novaja Gazeta og friðarverðlaunahafinn Dimitrí Múratov, segir að um tveggja vikna skeið hafi þau skilaboð ómað úr sjónvarpstækjum Rússa að opna skuli neðanjarðarbyrgi þau sem geymi kjarnorkuvopn.