Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ræddu staðhæfingar Lavrovs um nasisma í Úkraínu

epa09919957 Israeli Prime Minister Naftali Bennett speaks during a weekly cabinet meeting in Jerusalem, 01 May 2022.  EPA-EFE/MENAHEM KAHANA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Úkraínuforseti hefur rætt við forsætisráðherra Ísraels vegna staðhæfinga utanríkisráðherra Rússlands þess efnis að nasistar réðu ríkjum í Úkraínu og að iðulega væru gyðingar verstu gyðingahatararnir.

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti greindi frá samtali sínu við Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels í daglegu ávarpi sínu til Úkraínumanna í gærkvöld.

Hann sagðist hafa flutt Bennett árnaðaróskir í tilefni þjóðhátíðardags Ísraels ásamt að veita honum upplýsingar um stöðuna í Mariupol og öllum austurhluta Úkraínu.

Auk þess hafi þeir rætt það sem Zelensky sagði vera hneykslanlegar og algerlega óásættanlegar staðhæfingar Sergeis Lavrov utanríkisráðherra Rússlands sem hafi móðgað heimsbyggðina alla. 

Rússar hafa fullyrt að einn tilgangur innrásarinnar í Úkraínu sé að uppræta nasistastjórn sem þar ráði ríkjum. Lavrov sagði í viðtali á sunnudag að gyðinglegur uppruni Zelenskys skipti engu, að hörðustu gyðingahatararnir væru yfirleitt gyðingar sjálfir.

Hann staðhæfði jafnframt að gyðingablóð hefði runnið um æðar Adolfs Hitler. Ísraelsmenn brugðust hart við orðum Lavrovs og Bennett sagði slíkum lygum ætlað að kenna gyðingum sjálfum um hræðilegustu glæpi mannkynssögunnar.

Yair Lapid utanríkisráðherra Ísraels sagði orð Lavrovs óafsakanleg og Ned Price talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði þau rasísk og til marks um hve lágt Rússar væru tilbúnir að leggjast í áróðursstríði sínu.