
Bjartsýnistónn í voldugum evrópskum flugrekendum
AirFrance-KLM hefur tapað gríðarlegum fjárhæðum undanfarin tvö ár, frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Tap félagsins á þeim tíma er um ellefu milljarðar evra. Þrisvar sinnum fleiri farþegar flugu með vélum þess fyrstu þrjá mánuði þessa árs en í fyrra.
Þrátt fyrir hækkandi olíuverð, verðbólgu og stríð í Úkraínu segja stjórnendur félagsins að aukin eftirspurn sé eftir flugferðum og búast við hagnaði þegar líður á árið.
Stjórnendur Lufthansa búast við metfarþegafjölda í sumar og þakka það því hve mjög og víða hefur dregið úr takmörkunum vegna COVID-19. Fjöldi farþega meira en fjórfaldaðist fyrstu þrjá mánuði ársins, í þrettán milljónir úr þremur á sama tíma 2021.
Carsten Spohr, stjórnarformaður Lufthansa, segir að bókunum fjölgi í hverri viku. Einkum séu það frí- og ferðalagaþyrstir sem bóki flug. Enn er nokkuð langt í land með að jafnmikið sé um viðskiptaferðir og var fyrir faraldurinn.
Stjórnendur Lufthansa gera ráð fyrir enn bjartari tíð á næstu mánuðum en vara þó við að ferðakostnaður kunni að hækka.