Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Umönnunarbilið hafi neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna

Mynd: BSRB / Aðsend mynd
BSRB hefur ráðist í viðamikla rannsókn á stöðu leikskólamála hér á landi en samtökin hafa lengi gert þá kröfu að ríki og sveitarfélög grípi til aðgerða til að öllum börnum verði tryggð leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi.

Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, mætti í Morgunútvarpið á rás 2 í morgun. Þar sagði hún að umönnunarbilið hafi neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.

„Hérna er auðvitað velferðarstefna, það sem að fylgir því og það sem hin norðurlöndin horfa til er að þú veitir aukinn stuðning afþví að þú vilt stuðla að aukinni fæðingartíðni og við vitum að hún hefur verið að lækka í öllum löndunum,“ segir Sonja.

Sömuleiðis vilji fólk auka jafnrétti og gera foreldrum kleift að taka þátt á vinnumarkaði. Sonja segir hluta af fæðingarorlofslögunum og markmiðum þeirra sé að tryggja foreldrum möguleika á að samþætta vinnuna og einkalífið en þegar fæðingarorlofið taki við fari það þvert gegn þessum markmiðum.

„Afþví að þá er það yfirleitt konan sem er heima, það er því miður ennþá þannig, og það sem gerist þá er að þær eru að minnka starfshlutfallið sitt eða einfaldlega lengja í fæðingarorlofinu eða að reyna að finna einhverjar aðrar leiðir.“

Sonja segir það blasa við að þetta komi verst við þá sem tekjulægstir séu, sem hafi fæstu úrræðin til að leita í.

„Hluti af þessari herferð sem við fórum í á sínum tíma kom fram í viðtölum að það væru mjög margir að brúa þetta bil með yfirdrætti eða lántöku eða lánum frá fjölskyldu.“