Talað frá Tórínó: Sjarmerandi systur og sólarklúður

Mynd með færslu
 Mynd: EBU

Talað frá Tórínó: Sjarmerandi systur og sólarklúður

04.05.2022 - 15:30

Höfundar

Það er víst ómögulegt að týnast í Tórínó. Finni fólk sig í slíkum aðstæðum er ágætt að hafa í huga að Alparnir standa óhreyfðir norðvestan við borgina en hinum megin er gróðri vaxin Superga-hæðin. Áin Pó liðast svo örugglega gegnum borgina og setur svip sinn á hana með reisulegum brúm með voldugum styttum af vel byggðum gyðjum og goðum. Það er víst óvenju lítið í ánni um þessar mundir og því má segja að hún beri nafn með rentu en Po á ítölsku þýðir lítill. Allavega samkvæmt Google Translate.

Í Tórínó búa rétt tæplega 850 þúsund en þessar vikur er óhætt að segja að skrautlegum, listrænum og stundum glysgjörnum íbúum hafi fjölgað allverulega. Það er nefnilega verið að telja niður í Eurovision-hátíðina sem fer fram hér dagana 10., 12. og 14. maí í Pala Olimpico höllinni sem sérstaklega var byggð fyrir Vetrarólympíuleikana árið 2006. 

 

Eurovision 2022 fer fram í Pala Olimpico í Tórínó á Ítalíu
 Mynd: EBU
Tórínó er stundum líkt við París.

Sendinefndir 40 Evrópulanda hafa gert sig heimakomnar í Tórínó og eru nú, hver í sínu horni, að fínpússa þessar dýrmætu þrjár mínútur sem hvert land fær á sviðinu. Felix Bergsson fararstjóri íslenska hópsins er í sinni tíundu ferð í Eurovision. „Þetta hefur verið frábært í ár og nálgast aftur að vera „venjulegt“ Eurovision. Við erum að minnsta kosti frjáls til að fara um borgina, njóta veitingastaða og kaffihúsa og hitta kollega sem við höfum ekki séð síðan 2019. Listamennirnir eru mjög vel með á nótunum og hafa lagt mikið á sig til að vera sem best undirbúin fyrir stóru stundina á þriðjudaginn. Ég hef því ekki undan neinu að kvarta,“ segir hann glaður í bragði.

Felix hefur tekið virkan þátt í undirbúningi keppninnar í ár en hann situr í stýrihóp Eurovision. „Undirbúningsferillinn hefur verið góður og það er engin ástæða til að ætla annað en að þetta verði flott hjá Ítölunum. Ég er mjög spenntur að sjá atriðin koma saman í næstu viku og auðvitað sjá kynnana!“ Það eru fleiri en Felix sem eru spennt að sjá kynna keppninnar í ár sem eru þrír. Í þríeykinu eru Laura Pausini, lista- og tónlistarkona, Alessander Cattelan, sjónvarpskynnir til 20 ára og Mika, tónlistarmaður. Vitir þú ekki hver Mika er, skaltu fletta upp laginu Grace Kelly og hækka vel í því. Staðreynd málsins er óumflýjanleg: Þetta er geggjað lag!

Eurovision 2022 fer fram í Pala Olimpico í Tórínó á Ítalíu
 Mynd: EBU
Þríeykið sem kynnir keppnina.

Stóra sólarklúðrið

Æfingar á stóra sviðinu í Pala Olimpico hafa staðið yfir síðan síðasta laugardag en hvert land fær úthlutað örfáum sviðsæfingum. Í vikunni hefur dágóður tími farið í stóra, hreyfanlega sól sem átti upphaflega að snúast sem hluti af sviðsmyndinni. Nema hvað, sólin er biluð og mun víst ekki hreyfast meir. Felix fer yfir stóra sólarmálið. „Ákvörðun hefur verið tekin um að láta bara ljósahliðina á sólinni snúa fram. Það hentar raunar okkar atriði mjög vel en þessi tæknifeill varpar skugga á annars ágæta framkvæmd.“ Felix segir nokkuð ljóst að samtölum um stóru tæknisólina sé hvergi nærri lokið og klárlega eitthvað sem mun lengi lifa í minni aðstandenda keppninnar.

Sviðið verður til í Pala Olimpico höllinni í Tórínó þar sem Eurovision árið 2022 fer fram.
 Mynd: EBU
Sólin mun ekki hreyfast eins og til stóð.
Fyrsta æfing Systra, Siggu, Betu og Elínar í Pala Olimpico höllinni í Tórínó
 Mynd: EBU

En hvað með lögin?

Eurovision snýst víst um tónlist og sem fyrr segir eru 40 lög í keppninni í ár; 17 í fyrri undanúrslitum, 18 í seinni undanúrslitum og svo 5 lög sem komast beint í úrslit. Kristín H. Kristjánsdóttir sérlegur fréttaritari FÁSES og Wiwibloggs sem og auðvitað ástríðufullur Eurovision-nörd er mætt til Ítalíu, á sína 5. keppni, að hamra inn nýjustu tíðindi úr Euro-heimum. „Það sem mér finnst einkenna keppnina í ár er ákveðið þunglyndi, ef svo má að orði komast. Það eru mörg lög sem fjalla um ástarsorg, eymd og volæði. Svo er þeim pakkað inn í mismunandi umbúðir. En það eru stuðlög inn á milli sem standa út, til dæmis Noregur, Rúmenía og Ísrael. Heilt yfir er keppnin í ár mjög sterk og frekar erfitt að segja til um sigurvegara. Ég er reyndar ömurleg í að spá fyrir um úrslit en ég gæti trúað að Ítalía taki sigur á heimavelli. En ekki hafa það eftir mér!“ Kristín er líka frekar óviss um árangur Íslands í ár. „En þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þær hrikalega flottar og slá ekki eina feilnótu. Við getum öll verið stolt af þeim. Systur rokka!“ 

Felix nefnir að í ár heyrist óvenjulega mörg tungumál á sviðinu. „Það finnst mér gaman. Menn eru farnir að trúa því að það að syngja á eigin tungumáli muni ekki standa í vegi fyrir mögulegum sigri,“ segir hann. Eins og þú kæri lesandi ert auðvitað með á tæru flutti ítalska rokksveitin Måneskin sitt sigurlag í fyrra á móðurmálinu Zitti e buoni. „Þetta er jafnara en oft áður og að minnsta kosti fimm lög sem eiga góðan möguleika á sigri,“ segir Felix. 

Sjarminn lekur af systrunum

Já, systurnar rokka og íslenska þjóðin tekur líklega undir með Kristínu frá FÁSES í þeim efnum. Við Íslendingar erum yfirleitt sannfærð um gott gengi okkar lags en hverjar eru staðreyndir málsins? Hvernig er áhugi erlendra fjölmiðla á Systrum og íslenska laginu? „Mikill,“ segir fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins Rúnar Freyr Gíslason. „Til dæmis í dag fara þær í tíu viðtöl við miðla frá jafnmörgum löndum. Blaðamenn eru hrifnir af því sem þær hafa að segja en þær leggja mikla áherslu á réttindi minnihlutahópa, sérstaklega transfólks en það er málefni sem er þeim mjög hugleikið. Mér finnst blaðamenn hrífast með þegar þær tala. Þær eru einlægar og réttsýnar og vita hvað þær eru að segja,“ útskýrir Rúnar Freyr sem vill meina að systur hafi þarna ákveðna sérstöðu meðal listafólksins í keppninni og skýrt erindi sem á er hlustað. „Eins tala blaðamenn um hversu mikla tónlistargáfu þær hafa. Þær bresta í söng hér og þar og allir sjá að það vantar ekki hæfileikana á því sviði. Við getum verið mjög stolt af þeim, þær sjarmera alla sem þær hitta upp úr skónum.“ 

Fyrsta æfing Systra, Siggu, Betu og Elínar í Pala Olimpico höllinni í Tórínó
 Mynd: EBU

En víkkum nú aðeins fókusinn áður en við sleppum Rúnari Frey og horfum á stærri myndina. „Keppnin í ár er mjög góð, mikið af góðum lögum og skemmtilegum listamönnum. Ég skynja líka meiri mýkt í samskiptum en áður og kannski meiri samúð. Svo finnst mér líklegt að stríðið í Úkraínu hafi þessi áhrif, fólk er afar almennilegt við hvert annað og virðist tengja betur við hugmyndina um Eurovision, sem er að sameinast í friði og sátt.“ 

Systur stíga á svið í fyrri undanúrslitum þriðjudagskvöldið næstkomandi þann 10. maí. Íslenska atriðið er það 14. í röðinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Árný Fjóla verður stigakynnir Íslands í Eurovision

Menningarefni

„Þetta hefur enginn gert síðan Selma '99, Felix minn“

Menningarefni

Ljósaveisla á bakvið systkinin minnir á ítalska sól

Menningarefni

Systurnar þvertóku fyrir að dansa og syngja á sama tíma