Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mikið mannfall í loftárásum austanvert í Úkraínu

epa09924953 An injured woman walks after arriving on a bus which brought evacuated people from the steel plant Azovstal, Mariupol city and the surrounding areas, at the evacuation point in Zaporizhzhia, Ukraine, 03 May 2022. Around 100 civilians were evacuated from the steel plant, the last Ukrainian-controlled area in the southern port city of Mariupol, according to Ukrainian officials. Thousands of people who were still in Mariupol and other areas in South Ukraine occupied by the Russian army waited to be evacuated to Ukraine's controlled area by buses and their own cars.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Loftárásir Rússa í austanverðri Úkraínu urðu 21 almennum borgara að bana í dag og hið minnsta 27 særðust. Um það bil mánuður er síðan jafnmargir almennir borgarar fórust á einum degi. Brottflutningur fólks úr Azov-stálverksmiðjunni í Mariupol hélt áfram í dag.

Pavlo Kyrylenko, ríkisstjóri í Donetsk-héraði greindi frá loftárásunum á samfélagsmiðlinum Telegram. Hann sagði fyrr í dag að hið minnsta 15 hafa farist og tíu særst í árás Rússa á koxverksmiðju í borginni Avdiivka.

Kyrylenko sagði árásina hafa verið gerða rétt eftir að verkamenn höfðu lokið vakt sinni og biðu á strætisvagnabiðstöð. „Rússarnir vissu vel hvert skotmarkið var,“ sagði Kyrilenko.

Verksmiðjan er sú stærsta sinnar gerðar í Úkraínu, ein sú öflugasta í allri Evrópu og hefur lengi verið skotmark aðskilnaðarsinna í héraðinu. Síðar greindi Kyrylenko frá frekara mannfalli í nokkrum þorpum og bæjum í héraðinu.

Hann sagði að ekki hefðu fleiri almennir borgarar farist á einum degi síðan Rússar gerðu árás á lestarstöð í borginni Kramatorsk. Kyrylenko sagði að Rússum myndi hefnast fyrir aðgerðir sínar og glæpi.

Volodymyr Zelenski Úkraínuforseti greindi frá því í kvölda að 156 manns hefðu komist á brott frá Azov-stálverksmiðjunni í dag. Hann sagði brýnt að koma á varanlegu vopnahléi til þess að tryggja flóttaleiðir fólks frá Mariupol.

Hann kvaðst bjartsýnn á að unnt verði að bjarga enn fleiri þaðan þrátt fyrir stöðugar loftárásir Rússa á borgina. Hann sakar rússneskar hersveitir um að virða ekki gildandi vopnahléssamkomulag. 

„Í dag komust 156 konur og börn til Zaporizhzhia. Þau hafa verið í loftvarnarbyrgjum í meira en tvo mánuði. Ímyndið ykkur það!,“ sagði Zelensky og bætti við að fólkið væri loksins hólpið og fengi alla viðeigandi aðstoð.