Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íbúar Suðurnesja vilja skýra stefnu í ferðamálum

Marka þarf skýra stefnu og setja markmið í ferðamálum í Suðurnesjabæ og aðstoða ungt fólk sem stofnar fyrirtæki með tímabundnum ívilnunum. Þetta er meðal þess sem íbúar þar vilja sjá í kosningunum eftir tíu daga.

Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðust í eitt sveitarfélag á Reykjanesskaga, Suðurnesjabæ, í júní 2018 eftir að sameining hafði verið samþykkt í kosningum. 3760 manns búa í Suðurnesjabæ en þeir voru 3400 fyrir fjórum árum.

Betri aðstöðu til íþróttaiðkunar

Fjölbreytt þjónusta er í sveitarfélaginu og eftirspurn eftir íbúðalóðum hefur aukist jafnt og þétt. Tvær sundlaugar og íþróttamiðstöðvar eru í sveitarfélaginu en fólk í knattspyrnu kallar eftir betri aðstöðu.

„Það er myndi ég halda uppbygging á gervigrasvelli fyrir vetraraðstöðuna fyrir knattspyrnuna Reyni Víði með kannski möguleika á yfirbyggingu til framtíðar fyrir fleiri íþróttir það svona brennur á íbúunum og félögunum“ segir Einar Karl Vilhjálmsson, forstöðumaður íþróttamiðstöðva Suðurnesjabæjar.

Flugvöllurinn tilheyrir Suðurnesjabæ og ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg. Byggðasafnið opnaði á ný fyrsta maí og þangað liggur stöðugur straumur ferðamanna.

Marka stefnu og setja markmið í ferðaþjónustu

„Bara hingað á Garðskaga koma þúsundir af ferðamönnum bæði íslenskum og erlendum þetta er náttúrulega einstakt svæði sem bíður uppá svo mikið. Ég held það myndi gera atvinnumálum hér í Suðurnesjabæ mjög gott að marka stefnu, setja markmið, hvað viljum við“ segir Margrét Ásgeirsdóttir, forstöðumaður safna í Suðurnesjabæ.

Krafa er um heilsugæslu og fleiri atvinnutækifæri. Á Garðskagavita opnuðu tvö pör, annað frá Suðurnesjum og hitt frá Spáni, nýlega veitingastað, El Faro, innan veggja Lighthouse Inn-hótelsins sem margir telja mikla lyftistöng fyrir sveitarfélagið.

Styðja ný fyrirtæki

„Ég myndi segja að það geti verið mjög sterkt fyrir sveitarfélagið að geta veitt nýjum fyrirtækjum einhverjar ívilnanir til dæmis lækkað skatta tímabundið eða veitt tímabundinn afslátt af fasteignagjöldum eða eitthvað álíka“ segir Jenný María Unnarsdóttir einn eiganda El Faro.

Jenný segir sveitarfélagið þannig geta lagt sitt af mörkum, víða vanti fólk til vinnu og sóknarfærin liggi víða.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir